Útgáfu Eldað undir bláhimni fagnað
Í gær var því fagnað í Menningarhúsi Skagfirðinga í Varmahlíð að bókin Eldað undir bláhimni væri komin út. Útgefandi er Nýprent á Sauðárkróki og ritstjórn var í höndum Heiðdísar Lilju Magnúsdóttur en myndirnar í bókinni eru eftir þá Pétur Inga Björnsson og Óla Arnar Brynjarsson sem einnig er hönnuður bókarinnar.
-Þetta er bók um skagfirska matarmenningu, þar sem kynntir eru til leiks í máli og myndum helstu matvælaframleiðendur og veitingahús í Skagafirði. Fólk sem hefur unnið ötult starf við að efla og kynna matarferðaþjónustu í Skagafirði með þróunarverkefninu Matarkista Skagafjarðar, segir Heiðdís Lilja um bókina en farið er í sælkeraferð um Skagafjörð þar sem fögur náttúra og ljúffengir réttir eru í öndvegi.
-Við kynnumst fólkinu á bak við tjöldin, matvælaframleiðendum og atvinnukokkum, en förum líka í heimsókn á einkaheimili þar sem heimilisfólk laumar að okkur fjölskylduuppskriftunum sínum. Þá bregðum við okkur í bjargsig í Drangey með Ástu Birnu Jónsdóttur og félögum, á sjó með grásleppukarlinum Hauki Steingríms og upplifum iðandi mannlífið á Lummudögum, hrossablóti, þorrablóti og sælkeraveislum af ýmsu tagi, segir Heiðdís.
Bókin er bæði á íslensku og ensku og henni er skipt í kafla eftir árstíðum, auk þess sem fjallað er um þjóðlegar matarhefðir í sérstökum kafla. Hún inniheldur rúmlega fjörutíu uppskriftir og fjölda stórglæsilegra ljósmynda af skagfirskri matargerð, náttúrufegurð og mannlífi.
Sérstaða bókarinnar, segir Heiðdís vera án efa sú að hún er tileinkuð skagfirskri matarmenningu, sem byggir á þeirri hugmyndafræði að nýta það spennandi hráefni sem finna má í skagfirsku matarkistunni, til dæmis skagfirskt fjallalamb, rækjur, naut, hross, þorsk, Hólableikju og ferskan mozzarellaost. Leitast er við að tengja saman umfjöllun um umhverfi, matvælaframleiðendur, veitingahús og ástríðukokka.
-Þetta er sem sagt ekki bara uppskriftabók. Þetta er í takt við þá vitundarvakningu sem orðið hefur um allan heim að nýta það sem náttúran gefur, velja hráefni úr heimabyggð og styrkja tengslin milli framleiðenda og neytenda. Bókin var unnin í samstarfi við stjórn Matarkistu Skagafjarðar og þau veitingahús sem taka þátt í því verkefni. Svo er hún auðvitað unnin af hreinræktuðum Skagfirðingum, segir Heiðdís að lokum.
