Úthlutað úr Barnamenningarsjóði

Frá úthlutun úr Barnamenningarsjóði. Mynd:stjornarradid.is
Frá úthlutun úr Barnamenningarsjóði. Mynd:stjornarradid.is

Á dögunum var úthlutað úr Barnamenningarsjóði Íslands fyrir árið 2020. Þetta var önnur úthlutun sjóðsins sem stofnaður var í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands og hefur hann það hlutverk að styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífinu. Frá þessu er sagt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Fagráð Barnamenningarsjóðs fjallaði um þær 112 umsóknir sem bárust. Áhersla þess er meðal annars á að verkefnin mæti fjölbreyttum þörfum barna og ungmenna og í því skyni er til að mynda horft til aldurs, uppruna, færni, efnahags og búsetu. Einnig tekur úthlutun sjóðsins mið af áherslu núgildandi menningarstefnu á samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga. Að þessu sinni hlutu 42 verkefni styrki sem alls nema um 92 milljónum kr.

Norðurland vestra á hlutdeild í tveim umsóknum:  

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs í samstarfi við Þjóðleikhúsið, Leikfélag Hólmavíkur og samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum, Suðurlandi, Vesturlandi, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra – kr. 4.600.000.-
Þjóðleikur er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og margra grunn- og framhaldsskóla, menningarráða, sveitarfélaga og áhugaleikfélaga á landsbyggðinni. Markmið þess er að efla íslenska leikritun, styrkja leiklistariðkun ungs fólks og auka áhuga þess á leiklist, auk þess sem það styrkir fagþekkingu á leiklist í skólum og hjá áhugaleikfélögum. Verkefnið gengur nú gegnum þróunarferli sem ætlað er að styrkja grundvöll þess til frambúðar og koma samstarfinu við landshlutana í fastari skorður. 

Handbendi Brúðuleikhús ehf. – kr. 2.000.000.-
HIP – Alþjóðleg brúðulistahátíð á Hvammstanga; Hvammstangi International Puppetry Festival. Hátíðin er ný hátíð, sem ætlað er það hlutverk að auka fjölbreytni menningar í Húnaþingi vestra og gefa börnum á svæðinu tækifæri til að taka þátt í vönduðum listviðburðum á hátíð þar sem íslenskir og alþjóðlegir brúðulistamenn bjóða upp á brúðusýningar, vinnustofur og fyrirlestra. Handbendi hlaut styrk frá Barnamenningarsjóði 2019 fyrir sumarnámskeiði í leiklist.

Sjá nánar um úthlutanir sjóðsins hér

Þá hefur einnig verið úthlutað styrkjum til atvinnuleikhópa í átaksverkefni í menningu og listum fyrir árið 2020. Alls bárust 190 umsóknir frá 170 atvinnuleikhópum og sviðslistamönnum og sótt var um ríflega 930 milljónir króna. Úthlutað var 95 milljónum króna til 30 verkefna og þar hlaut Handbendi Brúðuleikhús einnig styrk vegna sama verkefnis, Alþjóðlegrar brúðulistahátíðar á Hvammstanga, að upphæð kr. 3.470.000.

Sjá nánar um úthlutanir sjóðsins hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir