Varnargarður á Skarðseyri lagaður fyrir haustið

Þennan garð þarf að hækka um allt að metra. MYND: ÓAB
Þennan garð þarf að hækka um allt að metra. MYND: ÓAB

Miklar skemmdir urðu á Sauðárkróki síðastliðinn vetur þegar ítrekað flæddi yfir sjóvarnargarða á Eyrinni í þeim miklu óveðrum sem riðu yfir landið. Stefnt er að því að hækka garðana um allt að einum metra til að þeir standist vond veður og sjólag. Áætlað er að framkvæmdir á Skarðseyri sem stefnt er að í ár kosti allt að 50 milljónum króna en það eru Vegagerðin og Sveitarfélagið Skagafjörður sem standa að þeim.

„Eftir upplýsingum frá Vegagerðinni þá skilst okkur að það eigi að fara í útboð síðsumars og framkvæmdir fyrir haustið hér við Skarðseyrina,“ er haft eftir Sigfúsi Inga Sigfússyni, sveitarstjóra Svf. Skagafjarðar á Rúv.is. 

Samkvæmt nýlegri skýrslu hafnadeildar Vegagerðarinnar þarf að hækka varnargarðana töluvert til að afleiðingar flóða, eins og þeirra sem Króksarar fengu að kenna á í vetur, gæti aðeins á 10-30 ára fresti en ekki árlega eins og annars er hætta á.

Fram kemur í máli Sigfúsar Inga að sveitarfélagið hafi lagt áherslu á að varnargarður við Strandveginn á Sauðárkróki yrði einnig lagaður fyrir veturinn en samkvæmt skýrslu Vegagerðarinnar þarf að hækka hann um 40-60 sm. Áætlaður kostnaður við þann þátt er 200-250 milljónir króna en RÚV hefur eftir Vegagerðarmönnum að ekki verði farið í þær framkvæmdir fyrr en á næsta ári, m.a. vegna þess að kanna þurfi skemmdir á þeim kafla betur. Þá hafi ekkert tjón orðið vegna flóðanna við Strandveginn og viðgerðir því ekki jafn aðkallandi.

Nánar má lesa um málið á Rúv.is >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir