Vetrarhátíð í Skagafirði hefst í dag

Vetrarhátíð hefst í Skagafirði í dag en hátíðin mun standa yfir dagana 15. – 24. febrúar. Þá mun skíðasvæðið í Tindastóli vera miðpunktur þeirra hátíðarhalda með fjölbreyttri dagskrá og tónlist sem mun hljóma í fjallinu alla dagana.

Þetta árið verður þó boðið upp á ýmsar nýjungar í afþreyingu og munu hátíðarhöldin breiðast víðar um fjörðinn. Viggó Jónsson staðarhaldari á skíðasvæði Tindastóls segir í viðtali í nýjasta tölublaði Feykis að upphaf þessarar hátíðar hafi eingöngu verið til þess fallin að gera eitthvað skemmtilegt yfir vetrartímann og kannski að ná fólki á skíði eða bara koma á skíðasvæðið og fylgjast með krökkunum í leik og sjá hversu hamingjusöm þau eru á skíðunum.

Þetta árið hafi verið lagt áherslu á að sækjast eftir víðtæku samstarfi við aðila utan skíðadeildarinnar og hefur það tekist afar vel til. Á meðal nýjunga þetta árið er að sauðfjárbændur á Syðri-Hofdölum verða með opið hús hjá sér, Byggðasafn Skagfirðinga ætlar að opna Minjahúsið og gamla bæinn í Glaumbæ, Gestastofa Sútarans býður gesti velkomna og einnig verður hægt að komast á hestbak hjá Topphestum.

Dagskrá Vetrarhátíðar má skoða á visitskagafjordur.is.

Fleiri fréttir