„Við höfum alla þekkingu hér til að þjálfa upp þessa hunda“

Fíkniefnaleitarhundur í gæðaúttekt á Sauðárkróki árið 2016. Mynd: feykir.is
Fíkniefnaleitarhundur í gæðaúttekt á Sauðárkróki árið 2016. Mynd: feykir.is

Ruv.is segir frá því að Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn í Lögreglunni á Norðurlandi vestra, vonist til að fá sérþjálfaða Covid-leitarhunda til landsins, gefi þeir góða raun erlendis. Íslenska lögreglan hefur verið í stöðugu sambandi við stofnanir í Bretlandi sem þjálfa hunda og rannsaka hvort þeir geti skilað árangri í greiningu kórónuveirusýna. Fyrstu niðurstöður benda til að hundarnir greini jákvæð sýni með um 90 prósenta nákvæmni. Finnskir Covid-leitarhundar hófu störf á flugvellinum í Helsinki í gær og virðist Covid hundaprófið heldur þægilegra fyrir fólk en það sem fyrir er hér á landi. 

Í dag þarf fólk að fá pinna ofan í kok og upp í nefið sem þykir ekki mjög þægilegt en þeir farþegar sem hafa farið í gegnum Helsinki hafa einungis þurft að láta strjúka á sér hálsinn með þurrku sem leitarhundurinn þefar af. Þetta ferli tekur í heild um 10 mínútur og ef hundurinn gefur merki um að viðkomandi sé með veiru er honum vísað á heilsugæslu flugvallarins í veirupróf. 

Embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra hefur yfirumsjón með þjálfun og úttekt á öllum lögregluhundum landsins og var falið það hlutverk árið 2018. Stefán Vagn Stefánsson sagði við RÚV að vel hafa verið fylgst með þessum tilraunaverkefnum erlendis frá byrjun faraldursins. Sérstaklega hjá Bretum, sem byrjuðu mjög snemma að þjálfa Covid-leitarhunda. 

„Síðan hefur háskólinn í Helsinki farið af stað, ásamt ýmsum öðrum. En Bretarnir hafa reynsluna af þjálfun malaríu-hunda í Gambíu árið 2016. Það skilaði góðum árangri,” segir Stefán í samtali við RÚV. „Við höfum verið í samskiptum við lögregluna í London varðandi þjálfun á okkar hundum hingað til og nú fylgjumst við náið með þessum nýjustu vendingum,” segir Stefán. 

Þá kom lögreglan í London þeim í samskipti við vísindastofnanir sem leiða þessa vinnu í Bretlandi og hafa þeir einnig fengið að fylgjast náið með þeirra rannsóknum. Þegar hundarnir fara að skila nægilega góðri vinnu vonast þeir til þess að geta farið af stað með svipað verkefni hér á Íslandi. 

„Við höfum alla þekkingu hér til að þjálfa upp þessa hunda, þannig að þá verður okkur ekkert að vanbúnaði,” segir hann. „Við erum búin að verða okkur úti um hunda erlendis, sem á eftir að fullþjálfa, og geta komið hingað til lands. Það yrði væntanlega í kring um tveggja mánaða ferli þar til hundarnir geta farið að þefa af og greina strokusýni.”

„Bresku hundarnir gátu tekið allt að 250 sýni á klukkutíma. Sem þýðir að tveir hundar gætu tekið 500 sýni,” segir hann. „Samkvæmt bráðabirgðarniðurstöðum eru hundarnir að ná yfir 90 prósenta nákvæmni við greiningarnar. Svo væri auðvitað hægt, til að hámarka nákvæmnina, að láta tvo hunda lykta af sömu sýnunum. Það mundi væntanlega hámarka nákvæmnina.”

Íslenska lögreglan bíður því spennt eftir endanlegum niðurstöðum frá Bretlandi og víðar, eins og Finnlandi og Þýskalandi segir Stefán Vagn og undirstrikar að með vinnu hundanna gætu legið gríðarleg tækifæri ef niðurstöðurnar skili sínu. „En svo verður það auðvitað annarra en okkar að taka ákvörðun um hvort þetta verði að veruleika hér,” segir hann að lokum. 

Hér má lesa fréttina í heild sinni sem birtist á ruv.is við Stefán Vagn. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir