Vilja uppræta fátækt

Frá undirritun í húsnæði Öryrkjabandalagsins í gær. F.v. Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB, Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, Drífa Snædal, forseti ASÍ og Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ. Mynd: obi.is.
Frá undirritun í húsnæði Öryrkjabandalagsins í gær. F.v. Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB, Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, Drífa Snædal, forseti ASÍ og Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ. Mynd: obi.is.

Samtök launafólks sýndu í verki að þau standa með Öryrkjabandalagi Íslands en í gær undirrituðu Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, Drífa Snædal, forseti ASÍ, Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB, Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM og Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ, yfirlýsingu og kröfur um bættan hag öryrkja.

Á vef ÖBÍ segir að kröfurnar séu skýrar en farið er fram á að lágmarksframfærsla öryrkja verði hækkuð þannig að fólki sé gert kleift að lifa mannsæmandi lífi, skerðingar verði endurskoðaðar þannig að þær standi ekki í vegi fyrir þátttöku á vinnumarkaði, hvort sem er að hluta eða tímabundið og að dregið verði úr tekjuskerðingum vegna lífeyristekna. Síðast, en ekki síst, er farið fram á að störf með viðeigandi aðlögun og sveigjanlegum vinnutíma verði tryggð fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ sagði á ávarpi sínu að um sögulega stund, væri um að ræða því aldrei áður hefðu samtök launþega lýst yfir stuðningi við Öryrkjabandalagið:
„Það er mér og því fólki sem ég er í forsvari fyrir gríðarlega mikilvægt að fá stuðning frá þessum öflugu samtökum launafólks. Aðdragandinn hefur verið nokkuð langur, og ýmislegt komið upp á leiðinni svo sem kjarabarátta, verkföll og svo Covid heimsfaraldurinni. Það má kannski segja að Kórónuveiran hafi opnað augu samfélagsins fyrir því hve fátækt er orðin mikil á Íslandi. Sá hópur sem einna verst stendur er fatlað og langveikt fólk, fólk sem hefur engar aðrar bjargir en að reiða sig á almannatryggingar. Við eigum nefnilega til að gleyma því að stærstur hluti öryrkja var á vinnumarkaði, jafnvel áratugum saman, áður en slys eða heilsuleysi gerbreytti lífi þeirra. Flestir vilja nefnilega geta séð sjálfum sér farborða, og ekki vera upp á aðra kominn. Við sem samfélag höfum ákveðið að tryggja þeim framfærslu í gegnum almannatryggingar. Þeim var og er, ætlað að grípa fólk sem ekki getur unnið vegna veikinda eða fötlunar. Við ákváðum að snúa bökum saman, og berjast fyrir því að jöfnuður og réttlæti nái til allra hópa samfélagsins, að engin sé skilinn eftir í fátækt, og tryggja að þeir sem þurfa að reiða sig á almannatryggingakerfið njóti mannsæmandi framfærslu. Við viljum uppræta fátækt. Þess vegna erum við hér í dag,“ sagði Þuríður Harpa á blaðamannfundi í húsnæði Öryrkjabandalagsins í gær.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir