Vinnuhópur um bóluefni gegn Covid-19

Mynd af stjornarradid.is.
Mynd af stjornarradid.is.

Undirbúningur sem snýr að framkvæmd kaupa á bóluefni gegn Covid-19 er hafinn í vinnuhópi sem heilbrigðisráðherra skipaði 26. ágúst síðastliðinn og er verið að skoða hvaða leiðir eru færar í þessum efnum. Á heimasíðu stjórnarráðsins kemur fram að fyrir liggur að kaup Íslands á bóluefnum gegn COVID-19 munu fara fram á grundvelli samninga Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur, líkt og kynnt var á fundi ríkisstjórnarinnar síðastliðinn föstudag.

„Eins og fram kemur í skipunarbréfi hópsins ber embætti landlæknis ábyrgð á framkvæmd bólusetninga samkvæmt sóttvarnalögum og er bóluefni vegna almennra bólusetninga, t.d. gegn árstíðabundinni inflúensu, útvegað með útboðum og samningum. Núgildandi samningur Íslands um bóluefni gegn inflúensu nær ekki yfir bóluefni gegn Covid-19 og má gera ráð fyrir að ákvörðun um samninga og kaup á slíku bóluefni þegar þar að kemur verði að ýmsu leyti frábrugðið ferlinu þegar um ræðir almenn bóluefni. Verkefni vinnuhópsins snýr að þessu og mun hann meðal annars leita í smiðju Norðmanna hvað þetta varðar þar sem sambærileg vinna stendur yfir,“ segir á stjornarradid.is en Svíþjóð mun hafa milligöngu um að framselja Íslendingum og Norðmönnum bóluefni á grundvelli samninga Evrópusambandsins.

Vinnuhópinn skipa:
Áslaug Einarsdóttir, fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins, formaður vinnuhópsins
Bjarni Sigurðsson, fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins
Valtýr St. Thors, fulltrúi sóttvarnalæknis
Ólafur Guðlaugsson, fulltrúi sóttvarnaráðs
Hulda Harðardóttir, fulltrúi Landspítala
Sindri Kristjánsson, fulltrúi Lyfjastofnunar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir