Vorverkin í Brimnesskógum

Margar hendur vinna létt verk í Brimnesskógi. AÐSEND MYND
Margar hendur vinna létt verk í Brimnesskógi. AÐSEND MYND

Skemmst er frá því að segja að vorverkum Brimnesskógarmanna í Skagafirði þetta árið er lokið. Hugað var að girðingunni umhverfis ræktunarsvæðið og hún lagfærð, en heita má árvisst að snjór sligi hana á fáeinum stöðum. Landið sem sem ræktað er á er um 23 hektarar að flatarmáli og er í eigu sveitarfélagsins Skagafjarðar. Allt starfið er unnið í sjálfboðavinnu og er skógurinn gjöf félagsmanna til samfélagsins.

Um hvítasunnuhelgina fór nokkur hópur sjálfboðaliða og dreifði áburði á trén, sem dafna eftir atvikum ágætlega. Mishávaxin eru þau en hin hæstu eru nú um tveggja metra há og sjást brúskarnir tilsýndar þegar ekinn er vegurinn vestan við Kolku skammt frá Kolkuósi.

Eingöngu eru ræktaðar trjátegundir sem hafa vaxið í Skagafirði frá öndverðu. Mest hefur verið gróðursett af kynbættu birki sem upprunnið er í Geirmundarhólaskógi, en einnig birki ættað úr Gljúfurárgili sunnan við Ásgeirsbrekku í Viðvíkursveit. Líka hefur verið gróðursettur vefjaræktaður reyniviður sem á uppruna sinn í Hrolleifsdal og gulvíðir og birki sem á rætur sínar að rekja í Fögruhlíð í Austurdal.

Nokkur ágrædd birki-móðurtré eru á ræktunarsvæðinu, fjögurra til fimm metra há og eru þau eftir atvikum hugsuð sem möguleg fræuppspretta í framtíðinni.

Helga Gunnaugsdóttir garðyrkjustjóri Skagafjarðar hefur verið stoð og stytta Brimnesskóga, félags frá upphafi.

Stjórn Brimnesskóga skipa Stefán S. Guðjónsson stjórnarformaður, Steinn Kárason framkvæmdastjóri, Jón Ásbergsson, Sölvi Sveinsson og Vilhjálmur Egilsson.

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir