Jazz-tónleikar í Blönduósskirkju - Tónleikaröð sóknarnefndar

Píanistinn Agnar Már Magnússon og gítarleikarinn Andrés Þór Gunnlaugsson verða í Blönduósskirkju sunnudaginn 13. september nk. Aðsend mynd.
Píanistinn Agnar Már Magnússon og gítarleikarinn Andrés Þór Gunnlaugsson verða í Blönduósskirkju sunnudaginn 13. september nk. Aðsend mynd.

Gítarleikarinn Andrés Þór Gunnlaugsson og píanistinn Agnar Már Magnússon munu koma fram á tónleikum í Blönduósskirkju sunnudaginn 13. september kl. 16. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaröð, en Andrés og Agnar fengu styrk frá Tónaland - landsbyggðartónleikar vegna verkefnisins. Á efnisskránni eru tónverk eftir þá félaga, auk laga eftir Jón Múla, Cole Porter og Luiz Bonfa.

Tónleikarnir eru hluti af tónleikaröð sem sóknarnefnd Blönduóskirkju stendur fyrir í vetur en tilgangur tónleikaraðarinnar er að greiða niður áhvílandi skuldir á orgeli Blönduóskirkju.

Sóknarnefndin hlaut styrk til verkefnisins frá Menningarsjóði KS og Blönduósbæ.

Aðgangur er ókeypis, en óskað er eftir frjálsum framlögum í orgelsjóð Blönduósskirkju. Þeir sem sjá sér ekki fært að mæta á tónleikanna en vilja leggja verkefninu lið er bent á bankareikning 0307-26-004701, kt. 470169-1689.

Um listamennina:
Gítarleikarinn Andrés Þór og píanóleikarinn Agnar Már Magnússon hafa starfað saman um langa hríð við hin ýmsu verkefni, allt frá því að spila saman í skólahljómsveit Víðistaðaskóla á unglingsárunum til þess að leika saman í kollektífa jazztríóinu ASA tríó sem þeir leiða saman ásamt trommuleikaranum Scott McLemore og allt þar á milli. Einnig hafa Andrés og Agnar verið ötulir við útgáfu á eigin efni og komið víða fram með eigin verkefni jafnt hérlendis sem erlendis. Nú leiða þeir félagar saman hesta sína og leika valin lög af nýlegum diskum sínum, “Hending” Agnars og “Paradox” Andrésar auk þess að blanda inní efniskránna ýmsum húsgöngum jazzbókmenntanna.

Andrés Þór lauk burtfararprófi frá tónlistarskóla FÍH, bachelorsgráðu og mastersgráðu frá Konunglega Tónlistarháskólanum í Den Haag í Hollandi þar sem hann lærði hjá Peter Niewerf, Wim Bronnenberg, Hein van der Geyn og John Ruocco auk þess að sækja masterclassa og workshop hjá hljóðfæraleikurum eins og Avishai Cohen, Kurt Rosenwinkel, Kenny Wheeler og John Abercrombie. Andrés flutti heim frá Hollandi árið 2004 og hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi síðan og gefið út fjölda geisladiska í eigin nafni og í ýmsum samstarfsverkefnum sem hafa margir hverjir hlotið mikið lof jafnt hérlendis sem erlendis.

Andrés starfar einnig sem tónlistarkennari við tónlistarskóla FÍH, MÍT (menntaskóla í tónlist) og við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Árið 2014 var Andrés útnefndur bæjarlistamaður Hafnarfjarðar og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar í formi tilnefninga til ýmissa verðlauna, hvatningarverðlaun og listamannalaun. Auk þess að hafa starfað með mörgum helstu tónlistarmönnum á Íslandi hefur Andrés komið fram á tónleikum með mörgum heimsþekktum jazztónlistarmönnum á borð við Michael Brecker, Ari Hoenig og Perico Sambeat. Andrés hefur komið fram víða á Íslandi og í Hollandi, Belgíu, Luxemburg, Frakklandi, Tékklandi, Slóvakíu, Noregi, Spáni, Bandaríkjunum og Þýskalandi.

Agnar Már Magnússon lauk burtfararprófi frá tónlistarskóla FÍH og Conservatorium van Amsterdam og hélt þaðan til New York í einkanám hjá djasspíanistanum Larry Goldings. Í New York komst Agnar í kynni við fleiri þekkta tónlistarmenn á sviði djassins en þau kynni leiddu m.a. til útgáfu fyrsta geisladisks hans sem ber nafnið 01.  Agnar hefur margoft verið tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna og tvisvar hlotið þau. Agnar skrifaði heila dagskrá fyrir stórsveit Reykjavíkur 2010 og var hún flutt á tónleikum það ár.

Tvö verkanna voru svo tekin upp og gefin út 2011 á disknum HAK. Sá diskur hlaut íslensku tónlistarverðlaunin sem djass diskur ársins. Agnar hefur starfað með heimsklassa djasstónlistarmönnum. Þar má nefna Bill Stewart, Ben Street, Seamus Blake, Chris Cheek, Ingrid Jensen, Frank Foster, Drew Gress, John Hollenbeck, Ari Hoenig og Perico Sambeat. Agnar á tónlistarferli sínum unnið til verðlauna svo sem „Outstanding Musicianship Award“ frá Berklee tónlistarháksólanum í Boston og komist í undanúrslit í Alþjóðlegu djass- píanókeppninni Martial Solal í París haustið 2002.

Hann hefur útsett lög fyrir geislaplötur og söngleiki, starfað með Stórsveit Reykjavíkur í mörg ár, leikið á tónleikum hérlendis sem erlendis, verið píanóleikari og annast tónlistarstjórn í leikhúsi. Agnar sá meðal annars um tónlistina í Söngvaseið, Mary Poppins og Billy Elliot fyrir Borgarleikhúsið. Agnar starfar nú sem djasspíanisti en kennir jafnframt píanóleik og tónsmíðar við djassdeild Tónlistarskóla FÍH og MÍT en þar hefur hann starfað síðan 2001. Agnar var útnefndur bæjarlistamaður Garðabæjar 2010.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir