Áttu bókað flug út degi eftir niðurstöðu seinni skimunar

Við almennt eftirlit um helgina hafði lögreglan á Norðurlandi vestra afskipti af tveimur erlendum ferðamönnum sem áttu að vera í sóttkví. Höfðu þeir við komuna til landsins farið í fyrri skimun, eins og reglur kveða á um, og svo haldið til í sumarbústað í umdæminu. Fengu sektir fyrir að virða ekki sóttvarnareglur.

Á Facebooksíðu lögreglunnar á Norðurlandi vestra kemur fram að ferðalangarnir hafi, þrátt fyrir að hafa kynnt sér allar reglur hvað varða sóttkví, farið í ferðir út frá bústaðnum á bifreið og meðal annars farið á skíði. Tekið er þó fram í færslunni að fólkið hafi ekki farið út á meðal almennings.

„Það vekur athygli að ferðamennirnir áttu bókað flug til síns heimalands degi síðar en niðurstaða seinni skimunar átti að liggja fyrir. Á þetta athæfi hafa verið lagðar sektir og hafa þeir hvor fyrir sig greitt 200.000 krónur til ríkissjóðs,“ segir í frétt lögreglunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir