Enn er hálka og varast þarf snarpar vindhviður
Það eru gular veðurviðvaranir sunnanlands nú í morgun en ekkert slíkt er í kortunum norðanlands. Það hefur engu að síður hvesst nokkuð duglega þar sem norðaustanáttin nær sér á strik og þannig þótti ekki óhætt að senda skólarútuna af stað í Blönduhlíðina í austanverðum Skagafirði í morgun. Þar var flughált og miklir vindstrengir af og til.
Á Siglufjarðarvegi, nánar tiltekið í Herkonugili, fór vindur í 28 m/sek í hviðum. Hiti á Norðurlandi vestra var víða yfir frostmarki í morgun í golan nokkuð hlý. Veðurspáin næsta sólarhringinn gerir ráð fyrir norðaustan 8-15 m/s, skýjuðu og þurrt að kalla, en austan 13-18 og él austantil. Hiti 0 til 5 stig. Síðan lægir seinni part þriðjudags og spáð er ágætu veðri á miðvikudag en á fimmtudagskvöld má gera ráð fyrir að það snjói lítillega. Engu að síður ágætt veður fram eftir vikunni.
Vegir eru almennt vel færir á Norðurlandi vestra en víða er þó hált en þó einkum í Skagafirði. Þjóðvegur 1 er víða greiðfær í Húnavatnssýslum. Hálka er á Öxnadalsheiði en í Norðurárdal er skafrenningur sem stendur og éljagangur á heiðinni og í Öxnadal. Éljagangi eða snjókomu er spáð á Öxnadalsheiði fram á kvöld.
