Erfitt að sækja sjóinn í síðustu viku

Dragney SK 2 - MYND: FISK.IS
Dragney SK 2 - MYND: FISK.IS

AFLATÖLUR | Dagana 7. til 13. mars 2021 á Norðurlandi vestra

Það var rólegt á miðunum í síðustu viku enda sóttu fáir sjóinn. Það héldu margir að vorið væri komið en þó það styttist óðfluga í það þá minnti vetur konungur allhressilega á sig seinni part vikunnar og var því aðeins hægt að sækja sjóinn í byrjun síðustu viku.

Á Króknum lönduðu tveir togarar, Drangey og Málmey og einn bátur, Kaldi. Aflahæst var Drangey SK 2 með rúm 210 tonn og var heildaraflinn á Króknum tæp 365 tonn. Á Skagaströnd lönduðu hins vegar átta bátar í níu löndunum og var Alda HU 112 aflahæst með tæp fjögur tonn. Hvorki var landað á Hofsósi né Hvammstanga. Heildaraflinn á Norðurlandi vestra var 383.089 kg í síðustu viku.

Á vef Fisk.is má lesa að uppistaða aflans hjá Málmey SK 1 hafi verið þorskur og hafi togarinn verið við veiðar á Eldeyjarbanka og Jökuldýpi. Þá var uppistaða aflans hjá Drangey SK2 einnig þorskur og sagði Andri Már Welding Hákonarson stýrimaður við fisk.is að þeir hafi verið á veiðum í þrjá og hálfan sólarhring á Hvalbakshallinu og veiðin hafi verið jöfn og góð í blíðu veðri.

Af öðrum togurum/bátum útgerðarinnar sem lönduðu í öðrum höfnum:   

Farsæll SH30 landaði 55 tonnum á Grundarfirði. Uppistaða aflans var skarkoli.  Fisk.is hafði samband við Stefán Viðar Ólason stýrimann og spurði út í túrinn. „Í þessari veiðiferð vorum við í um fimm sólarhringa á veiðum vestur af Garðskaga. Við vorum þar allan túrinn, fyrir utan einn sólarhring þegar við fórum á Eldeyjarbanka. Veiðin var nokkuð jöfn og veðrið var með besta móti,“ sagði Stefán Viðar.

Sigurborg SH12 landaði einnig á Grundarfirði 85 tonnum og var uppistaðan skarkoli. Fisk.is hafði samband við Guðbjörn Jónsson stýrimann og spurði um veiðiferðina. „Við vorum, þessa sex daga veiðiferð, í um fimm daga á veiðum, í góðu veðri og var ágætis fiskeríi. Það var jöfn veiði allan tímann, aflinn tæp 90 tonn. Við náðum  smá ufsaveiði í restina á Eldeyjarbanka en annars vorum við vestur af Garðskaga allan túrinn,“ sagði Guðbjörn.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir