Feðgar í liði Kormáks/Hvatar

Feðgarnir Björn Jökull og Bjarki Már að leik loknum. MYND AF FB
Feðgarnir Björn Jökull og Bjarki Már að leik loknum. MYND AF FB

Lið Kormáks/Hvatar tekur nú þátt í B-deild Kjarnafæðismótsins í knattspyrnu en sex lið taka þátt í henni. Lið Húnvetninga hefur nú þegar leikið þrjá leiki og náði í sinn fyrsta sigur í síðustu viku. Þá öttu þeir kappi við lið Samherja og höfðu sigur, 4-2.

Leikurinn fór fram á talsvert snjóugum gervigrasvelli KA-manna  og kom Jónas Aron Ólafsson K/H yfir strax á 8. mínútu. Sigurður Aadnegard bætti öðru marki við tíu mínútum síðar og síðan urðu Samherjar fyrir því óláni að gera sjálfsmark tveimur mínútum síðar. Þeir lögðu þó ekki árar í bát og minnkuðu muninn í 3-2 fyrir hlé. Það var hins vegar Árni Einar Adolfsson sem gulltryggði sigur Kormáks/Hvatar á 60. mínútu.

Fyrri tveir leikir K/H töpuðust. Sá fyrri var gegn sameiginlegu liði Hattar og Hugins og endaði 5-0. Hinn leikurinn var gegn kempum KF úr Fjallabyggð og endaði hann 4-0.

Kannski verður leiksins helst minnst fyrir það að feðgar spiluðu fyrir lið K/H en það er fátítt. Bjarki Már Árnason sem er fæddur 1978 og sonur hans, Björn Jökull Bjarkason, sem er árgerð 2006, voru báðir á vellinum fyrir lið Kormáks/Hvatar síðasta hálftímann.

Feykir hafði samband við þjálfarann og pabbann og spurði hvernig feðgarnir hefðu staðið sig. „Feðgarnir plummuðu sig mjög vel saman og óhætt að segja að það hafi verið spenna í okkur báðum því það er ekki sjálfgefið að ná þessu. Ég er með svo frábæra stráka í liðinu að þeir studdu vel við bakið á honum þannig að honum gekk vel. Strákurinn er mjög efnilegur og vonandi heldur hann áfram að æfa sig og bæta, þá getur hann alveg náð langt. Við sjáum hann a.m.k. sjaldan án þess að vera með fótbolta með sér,“ sagði helsáttur Bjarki Már.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir