Flóttafólkið komið til Hvammstanga

Á Hvammstanga. Mynd:FE
Á Hvammstanga. Mynd:FE

Sýrlenska flóttafólkið sem kom til landsins í gær kom til Hvammstanga seint í gærkvöldi eftir langt ferðalag frá Líbanon þar sem það hefur dvalið undanfarin ár við misjafnar aðstæður. Hópurinn samanstendur af fimm fjölskyldum, tíu fullorðnum og 13 börnum.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var rætt við Liljanu Milenkoska, verkefnisstjóri hjá Húnaþingi vestra. Sagði hún að hópurinn hafi komið með rútu til Hvammstanga um ellefuleytið í gærkvöldi og sé fólkið alsælt með bæinn og heimili sín. Þau séu einstaklega jákvæð, þrátt fyrir mikið álag og langt ferðalag, og tali um að vera nú komin heim. „Já, þeim finnst akkúrat það að þau séu komin heim. Og þau hafa mjög góða tilfinningu fyrir því að flytja hingað til okkar," sagði Liljana Milenkoska.

Liliana segir að á næstu dögum þurfi að kynna ýmislegt í nærumhverfinu, s.s.hlutverk sveitarfélagsins og þá þjónustu sem hópurinn á rétt á. Einnig eiga sjálfboðaliðar eftir að kynnast þeim fjölskyldum sem þeir munu fylgja og styðja. Svo taki við þriggja til fjögurra vikna prógramm þar sem búið er að skipuleggja samfélagsfræðslu fyrir fjölskyldurna og í sumar fái börnin íslenskukennslu þannig að þau hafi fengið grunn í íslensku þegar þau byrja í skóla í haust.

Í kvöld er svo annar hópur flóttafólks væntanlegur til Blönduóss.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir