Gamla árið kvatt með brennum og flugeldasýningum

Áramótabrenna. Mynd: Skagafjordur.is
Áramótabrenna. Mynd: Skagafjordur.is

Nú eru áramótin rétt handan við hornið og að vanda verður það kvatt með brennum, skoteldum og almennum gleðskap. Flugeldasýningar og brennur í umsjón björgunarsveitanna verði haldnar á sjö stöðum á Norðurlandi vestra að þessu sinni, á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd, í Varmahlíð, á Sauðárkróki, Hólum og á Hofsósi.

Brennur og flugeldasýningar verða á þessum stöðum:

Á Hvammstanga verður kveikt í áramótabrennunni við Höfða kl 21:00 í kvöld og fljótlega eftir það hefst flugeldasýning í boði fyrirtækja í Húnaþingi-vestra. Það er Björgunarsveitin Húnar sem hefur umsjón með áramótabrennu og flugeldasýningu.

Á Blönduósi verður áramótabrenna og flugeldasýning í umsjón Björgunarfélagsins Blöndu á Miðholti. Til að komast þangað er m.a. hægt að keyra í suðurátt frá Blönduósi u.þ.b. 600 m og beygja útaf þjóðveginum til norðurs.  Kveikt verður í brennunni klukkan 20:30 og hefst flugeldasýning skömmu síðar..

Á Skagaströnd verður áramótabrenna við Snorraberg á mótum Vetrarbrautar og Ásvegs. Klukkan 20:30 fer blysför frá Félagsheimilinu Fellsborg að brennunni en kveikt verður í henni klukkan 20:45 og skömmu síðar hefst flugeldasýning sem styrkt er af fyrirtækjum bæjarins. Brennan og flugeldasýningin eru í umsjón Björgunarsveitarinnar Strandar og Ungmennafélagsins Fram.

Kveikt verður í öllum brennum í Skagafirði klukkan 20:30. Í Varmahlíð sér Flugbjörgunarsveitin um flugeldasýningu og brennu sem verður við afleggjarann upp í Efri-Byggð. Á Sauðárkróki er brennan norðan við hús Vegagerðarinnar og þar er það Skagfirðingasveit sem hefur umsjón með málum, brennan á Hólum verður sunnan við Víðines þar sem Björgunarsveitin Grettir annast flugeldasýningu og á Hofsósi sér Björgunarsveitin Grettir um  flugeldasýningu og brennu á Móhól ofan við þorpið. Á þessum stöðum hefjast flugeldasýningar klukkan 21:00. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir