Gult ástand og ófærð víða

Svona var ástandið klukkan 16 í dag. Mikil ófærð og vetrarríki. Mynd af vegagerdin.is.
Svona var ástandið klukkan 16 í dag. Mikil ófærð og vetrarríki. Mynd af vegagerdin.is.

Vetrarfærð er í öllum landshlutum og víða slæmt veður og margir lokaðir vegir um norðanvert landið. Gul viðvörun vegna veðurs er í gildi fyrir Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi, Austfirði, Suðausturland og Miðhálendi. Á spásvæði Stranda og Norðurlands vestra er norðaustan hríð, 15-23 m/s og talsverð eða mikil snjókoma og skafrenningur, einkum í Skagafirði, á Tröllaskaga og á Ströndum. Takmarkað skyggni og léleg akstursskilyrði. Lægir og styttir upp í kvöld. Austlæg átt, 5-13 á morgun og stöku él á annesjum en sjókoma sunnantil annað kvöld. Frost 0 til 6 stig en 2 til 10 stig á morgun. 

Vegir um Holtavörðuheiði, Vatnsskarð, Þverárfjall og Öxnadalsheiði eru lokaðir vegna veðurs og hættustig er í gildi vegna snjóflóðahættu á Siglufjarðarvegi og um Ólafsfjarðarmúla og vegir þar því lokaðir. 

Vesturland
Ófært er á Svínadal og beðið með mokstur vegna veðurs. Einnig er ófært í Staðarsveit og á Útnesvegi. Vegurinn um Fróðárheiði er lokaður.

Vestfirðir
Fært er milli flestra staða í nágrenni Patreksfjarðar og milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur en annars þungfært, þæfingsfærð eða ófært og víða beðið með mokstur.

Þröskuldar
Vegurinn er lokaður vegna ófærðar og veðurs og verður staðan endurmetin síðar í dag.

Súgandafjörður
Það er versnandi veður í Súgandafirði og var mokstri hætt kl 14.00.

Gemlufallsheiði
Vegurinn er ófær og ekki líklegt að verði hægt að opna í dag.

Flateyrarvegur
Vegurinn er lokaður og mokstur í bið vegna veðurs.

Súðavíkurhlíð
Óvissustig er í gildi vegna snjóflóðahættu.

Steingrímsfjarðarheiði
Vegurinn er lokaður vegna ófærðar og veðurs og verður staðan endurmetin síðar í dag.

Norðausturland
Mikið ófært, slæmt veður og víðast hvar beðið með mokstur. Flestir vegir eru ófærir í Eyjafirði og beðið með mokstur. Snjóflóðahætta er í Dalsmynni.

Mývatnsöræfi
Vegurinn um Mývatns- og Möðrudalsöræfi er lokaður vegna veðurs.

Austurland
Víða þungfært eða þæfingsfærð en ófært í Hróarstungu og á Vatnsskarði eystra. Snjókoma er á Héraði.

Fjarðarheiði
Vegurinn er lokaður vegna veðurs og ófærðar.

Suðurland
Þungfært er á Grafningsvegi, Rangárvallavegi og Þingskálavegi og þæfingsfærð á hluta af Þingvallavegi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir