Hlutfall innflytjenda lægst á Norðurlandi vestra

Tafla Hagstofunnar sýnir hlutfall innflytjenda eftir landshlutum.
Tafla Hagstofunnar sýnir hlutfall innflytjenda eftir landshlutum.

Í frétt á Húna.is, sem unnin er úr upplýsingum frá Hagstofunni, segir að um síðustu áramót hafi 55.354 innflytjendur verið á Íslandi eða 15,2% mannfjöldans. Fjölgaði þeim um 5.083 milli ára. Innflytjendum af annarri kynslóð fjölgaði einnig á milli ára, þeir voru 5.264 í fyrra en eru nú 5.684. Lægst er hlutfall innflytjenda á Norðurlandi vestra en þar voru 9,1% mannfjöldans innflytjendur og börn þeirra á meðan hlutfallið var hæst á Suðurnesjum eða 27,9%.

Um áramótin síðastliðinn bjuggu 39.115 fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjendur á höfuðborgarsvæðinu eða 64,1% allra innflytjenda á landinu. Hlutfall innflytjenda af mannfjölda var mest á Suðurnesjum eins og segir í inngangi en þar voru 27,9% innflytjendur af fyrstu eða annarri kynslóð. Næsthæst er hlutfallið á Vestfjörðum þar sem 19,9% mannfjöldans voru innflytjendur og börn þeirra. Á Norðurlandi eystra var það rétt um 10%, en lægst á Norðurlandi vestra eins og áður sagði. Á Vesturlandi, Austurlandi og Suðurlandi er hlutfallið um og yfir 15%.

Samanlagt er fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 16,8% af mannfjöldanum og hefur það hlutfall aldrei verið hærra. 

Eins og síðustu ár eru Pólverjar langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi. Hinn 1. janúar síðastliðinn voru 20.477 einstaklingar frá Póllandi eða 37% allra innflytjenda. Þar á eftir koma einstaklingar frá Litháen (5,9%) og Filippseyjum (3,8%). Pólskir karlar eru 39,3% allra karlkyns innflytjenda eða 12.121 af 30.866. Litháískir karlar eru næst fjölmennastir (6,7%) og síðan karlar með uppruna frá Rúmeníu (4,4%). Pólskar konur eru 34,1% kvenkyns innflytjenda, næst á eftir þeim eru konur frá Filippseyjum (5,8%) og þá konur frá Litháen (5%).

Heimild: Húni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir