Ljós sett upp við göngustíg við Syðri-Hvammsá á Hvammstanga
Undanfarið hefur nýtt hverfi verið í byggingu við Lindarveg á Hvammstanga. Er það staðsett nærri göngustíg við Syðri-Hvammsá og er hann eina gönguleiðin að og frá hverfinu.
Í frétt á vef Húnaþings vestra er sagt frá því að ákveðið var að setja upp lýsingu við stíginn svo nú geta skólabörnin í hverfinu gengið í og úr skóla á upplýstum stígnum sem hefur að mestu verið ófær vegna myrkurs núna í mesta skammdeginu.
„Stígurinn er staðsettur á mjög fallegu svæði meðfram ánni og tengir kauptúnið við útivistar- og íþróttasvæðið í Kirkjuhvammi og gönguleiðir sem þar eru. Lýsingin eykur útivistarmöguleika, en stígurinn er mikið notaður af íbúum og gestum. Þó að lýsingin nái núna aðeins upp að „vaðinu“ á Ásnum þá er fallegt að ganga hann í rökkri, þó eingöngu sé gengið fram og til baka. Auðvelt er líka að bregða sér aðeins út fyrir stíginn og koma sér fyrir í lítilli laut við ánna til að hugleiða og/eða upplifa stjörnubjartan himininn,“ segir í fréttinni.
