Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra flytur á Vesturlandið

Dómsmálaráðherra hefur skipað Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóra á Norðurlandi vestra í embætti lögreglustjórans á Vesturlandi frá 7. apríl næstkomandi. Á  heimasíðu stjórnarráðsins kemur fram að Gunnar Örn hafi frá árinu 2015 verið yfirmaður ákærusviðs við embætti lögreglustjórans á Suðurlandi og staðgengill lögreglustjóra, þar til að hann tók við embætti lögreglustjóra á Norðurlandi vestra árið 2017.

Gunnar Örn útskrifaðist sem lögfræðingur árið 2003 og starfaði sem löglærður fulltrúi sýslumannsins á Selfossi frá 2004 til ársins 2014, þar af sem staðgengill sýslumanns frá 2008 og sem yfirmaður ákærusviðs embættisins frá 2015.

Í samtali við Skessuhorn sagði Gunnar Örn að hið nýja starf legðist afar vel í hann og kvaðst hlakka mikið til þess að kynnast góðu samstarfsfólki. Sagði hann að hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra hafi mikil áhersla verið lögð á umferðarmál og skaðaminnkandi aðgerðir í tengslum við þau enda hafi náðst mikill árangur við fækkun slysa á undanförnum árum. Jafnframt sagði Gunnar Örn að eðli málsins samkvæmt væru embættin ólík með ýmislegt, til að mynda væru lögreglustöðvarnar sex á Vesturlandi en tvær á Norðurlandi vestra, embættið á Vesturlandi víðfeðmt og mannmargt og segist hann ætla að gefa sér góðan tíma til þess að setja sig inn í málin í nýju embætti.

Sjá frétt Skessuhorns HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir