Námskeið í torfhleðslu á Tyrfingsstöðum í september

Frá námskeiðinu á Tyrfingsstöðum. Mynd: Fornverkaskólinn.
Frá námskeiðinu á Tyrfingsstöðum. Mynd: Fornverkaskólinn.

Dagana 10.-12. september nk. fer fram námskeið í torfhleðslu á Tyrfingsstöðum á Kjálka í Akrahrepp. Námskeiðið mun fara fram í samræmi við þær sóttvarnarreglur sem verða í september. Kennari á námskeiðinu verður sem fyrr, Helgi Sigurðsson hjá Fornverki ehf. 

"Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa áhuga á að læra að byggja úr torfi og megináhersla verður á verklega kennslu. Kennd verða meginatriði í efnisvali, torfstungu og torfskurði og helstu hleðsluaðferðir með streng og klömbruhnausum. Ætlunin er að klára að hlaða veggi og tyrfa yfir hlöðu á Tyrfingsstöðum. Nemendum verða útveguð helstu verkfæri á staðnum, s.s. stunguskóflu og torfljá," segir í námskeiðalýsingu á heimasíðu Fornverkaskólans.

Torfhleðslu námskeiðið kostar 65.000 kr. og innifalið í því verði eru; efni, áhöld, kaffiveitingar og léttur hádegisverður. Fornverkaskólinn minnir á fræðslusjóði stéttarfélaganna og niðurgreiðslu þeirra vegna þátttöku á námskeiðum og hvetur fólk til að kynna sér sinn rétt hjá sínu stéttarfélagi. 

Athygli er vakin á því að nemendur þurfa að sjá sér sjálfir fyrir gistingu og mat utan námskeiðs. 

Mælst er með því að hafa með sér hlýjan fatnað, hlífðarföt (pollagalla), vinnuhanska og stígvél/góða skó. Torftakan fer m.a. fram í votlendi og því viðbúið að þátttakendur verði moldugir og blautir.

Nánari upplýsingar um námskeiðið og námskeiðslýsingu má finna á vefsíðu Fornverkaskólans og fyrirspurnir og skráning á námskeiðið sendist til Ingu Katrínar Magnúsdóttur á ingakatrin@skagafjordur.is.

Eftirfarandi upplýsingar þurfa að fylgja með skráningu: fullt nafn, heimilisfang, kennitölu og símanúmer.

/SMH

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir