Ræktar eigið tóbak

Svanur Elíasson á Hvammstanga segist ekki vera áhugamaður um ræktun, né með sérlega græna fingur, en hann hóf þó að rækta eigin tóbaksplöntur þar sem honum blöskraði verðið á tóbaki.

„Ég keypti tóbaksfræ erlendis frá, frá Bandaríkjunum gegnumnetið og ætlaði að prufa hvort hægt væri að rækta þetta hér án þess að vera með gróðurhús. Ég er búinn að vera þetta í glugganum hjá mér fram í júní og eftir það setti ég plönturnar út og þær dafna vel úti, orðnar háar og miklar. Þetta er sennilega í fyrsta sinn á Íslandi sem er prófað að rækta tóbaksplöntur, alla vega veit ég ekki til þess að það hafi verið prófað áður.“

Sem fyrr segir var það ekki ræktunaráhugi heldur hátt tóbaksverð sem dró Svan út í ræktun heldur hátt verð á tóbaki. En skyldi þetta ekki vera nokkur fyrirhöfn?

„Þegar plantan hefur náð réttri stærð tekur við sex vikna ferli við að þurrka blöðin og síðan þarf að halla þau mjög smátt og troða í hólka með filter“, segir Svanur sem hefur einnig fjárfest í umræddum hólkum gegnum netið og telur hann fyrirhöfnina þess virði, enda sé verð á tóbaki á Íslandi orðið óheyrilega hátt. Aðspurður segir hann að ræktun sem þessi sé ekki ólögleg og hann óttist því ekki að hún verði stoppuð af.

 

Fleiri fréttir