Samstarfsnefnd lögreglu og sveitarfélaga á Norðurlandi vestra virkjuð

Á dögunum var virkjuð í fyrsta sinn samstarfsnefnd lögreglu og sveitarfélaga í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra, en sveitarfélög umdæmisins eru sjö talsins. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebooksíðu embættisins.

Þar segir ennfremur að nefndin starfi á grundvelli 12. gr. lögreglulaga þar sem kveðið er á um að í hverju lögregluumdæmi skuli starfa ein eða fleiri samstarfsnefndir um málefni lögreglunnar. Í samstarfsnefndinni sitja lögreglustjóri viðkomandi lögregluumdæmis, sem jafnframt er formaður hennar, og sveitarstjórar þeirra sveitarfélaga sem eru í lögregluumdæminu eða eru á því svæði þar sem nefndin starfar.

Samstarfsnefndinni er ætlað að vera vettvangur fyrir samskipti og samvinnu lögreglunnar og sveitarfélaga í umdæminu og er henni m.a. ætlað að gera tillögur um úrbætur í málefnum sem varða löggæslu í umdæmi hennar og beita sér fyrir því að almenningi verði kynnt starfsemi lögreglunnar.

Nefndin hittist á lögregluvarðstofunni á Blönduósi og voru m.a. til umfjöllunar hugmyndir um aukna og bætta samvinnu lögreglu og sveitarfélaga innan umdæmisins, umferðarmál, afbrotavarnir/forvarnir og fræðsla, einkum til ungs fólks, og málefni almannavarna.

Í færslu lögreglunnar segir að almenn ánægja hafi verið með fundinn og tilhlökkun hjá bæði lögreglustjóra og sveitarstjórum að efla samvinnu lögreglu og sveitarfélaga innan umdæmisins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir