Sextíu og fimm milljónir til 76 verkefna

Þorleifur Karl Eggertsson, formaður stjórnar SSNV, veitir Sigurði Hansen, Maríu Guðmundsdóttur og Berglindi Þorsteinsdóttur hjá Kakalaskála viðurkenningu sem framúrskarandi verkefni árið 2019. Mynd: SSNV.
Þorleifur Karl Eggertsson, formaður stjórnar SSNV, veitir Sigurði Hansen, Maríu Guðmundsdóttur og Berglindi Þorsteinsdóttur hjá Kakalaskála viðurkenningu sem framúrskarandi verkefni árið 2019. Mynd: SSNV.

Alls bárust 113 umsóknir í Uppbyggingasjóð Norðurlands vestra þar sem óskað var eftir 170 milljónum króna í styrki en aðeins sjötíu og sex verkefni, 60 aðila, náðu í gegn en úthlutun fór fram sl. fimmtudag í félagsheimilinu á Hvammstanga. Samtals var úthlutað 65 milljónum króna en hæsta styrkinn hlaut Þekkingarsetrið á Blönduósi, 5.162.000.  

Næst hæsti styrkurinn, 3.896.500 kr., kom í hlut Olgu Lindar Geirsdóttur með verkefnið Lopalind spunaverksmiðja en stofn- og rekstrarstyrki upp á 2.200.000 kr. fengu Kakalaskáli, Prjónagleði, Spákonuarfur, Samgönguminjasafn Skagafjarðar og Selasetur Íslands. Sömu upphæð fékk Skotta á Sauðárkróki fyrir Alþjóðlegan kvikmyndaskóla. Styrkirnir voru eðlilega misháir, flestir undir milljón eða 52 og þeir lægstu 150 þúsund.

Við sama tilefni voru veittar viðurkenningar til tveggja framúrskarandi verkefna sem farið hafa fram á Norðurlandi vestra en stjórn SSNV ákvað að veita þær árlega í tveimur flokkum, annars vegar á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar og hins vegar á sviði menningar. Kallað var eftir tilnefningum íbúa svæðisins og barst alls 31 tilnefning um tuttugu verkefni. Í framhaldi af því valdi stjórnin eitt verkefni úr hvorum flokki til að veita þessar nýju viðurkenningar og komu þær að þessu sinni í hlut sýningarinnar 1238 á Sauðárkróki sem rekin er af fyrirtækinu Sýndarveruleika ehf. sem framúrskarandi verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar fyrir árið 2019 og verkefnið sem hlaut viðurkenningu sem framúrskarandi verkefni árið 2019 er líka tengt sagnaarfinum en það er sýningin um Þórð kakala sem rekin er af Kakalaskála ehf.

Við athöfnina á Hvammstanga fluttu þeir ávörp Haraldur Benediktsson, fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis og Lárus Ægir Guðmundsson, formaður úthlutunarnefndar Uppbyggingarsjóðs. Karlakórinn Lóuþrælar söng fjögur lög undir stjórn Ólafs Rúnarssonar og við undirleik Elínborgar Sigurgeirsdóttur en einsöngvari var Guðmundur Þorbergsson. Samkomunni stjórnaði Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV.

Nánar á heimasíðu SSNV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir