Slæmt veður yfir verslunarmannahelgina

Veðurkortið fyrir 31. júlí kl 13:00. Má segja að veðrið verði svona alla helgina, rigning um allt land. SKJÁSKOT AF VEDUR.IS
Veðurkortið fyrir 31. júlí kl 13:00. Má segja að veðrið verði svona alla helgina, rigning um allt land. SKJÁSKOT AF VEDUR.IS

Veðurútlitið er frekar napurt fyrir verslunarmannahelgina. Heldur blautt veður er framundan og búið er að gefa út gular og appelsínugular viðvaranir fyrir Suðurland, Suðausturland og Austfirði vegna úrkomu og aurskriða. Nú þegar hefur þjóðvegi eitt um Öræfin verið lokað tímabundið í dag vegna veðurs.

Í hugleiðingum veðurfræðing á heimasíðu Veðurstofunnar segir: „Alldjúp lægð nálgast nú landið úr suðri. Henni fylgir stíf austan- og norðaustanátt víða um land, en hvassviðri eða stormur við suðausturströndina fram eftir degi. Það rignir um allt land og er búist við úrhelli á Austfjörðum og Suðausturlandi. Hægari vindur á morgun og lítilsháttar væta, en töluverðu rigning suðaustan til á landinu. Hiti yfirleitt 10 til 17 stig, hlýjast norðan- og vestanlands.“

Veðurósk Þórólfs fyrir verslunarmannahelgina.Það mætti kannski segja að þetta leiðinda veður komi á hárréttum tíma þar sem við horfum nú fram á hertari sóttvarnaraðgerðir gegn COVID og fólki er ráðlegt að halda sig heima við. Hvort sóttvarnarlæknir hafi verið bænheyrður skal ósagt látið en meðfylgjandi brandari hefur gengið manna á milli á Facebook. 

Veðurhorfur á landinu 

Norðaustan 15-23 m/s SA-lands fram eftir degi, síðan 13-18, en annars 8-15 m/s. Rigning um allt land, talsverð eða mikil úrkoma á Austfjörðum og SA-landi. Hiti 8 til 15 stig. Dregur úr vindi og úrkomu í kvöld og nótt, einkum N-lands.
Austlæg átt á morgun, 8-15 og rigning SA-lands, en annars víða skúrir. Hiti 9 til 17 stig, svalast og hvassast á Vestfjörðum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:
Norðan og norðvestan 5-13 m/s á V-verðu landinu, en annars SA-lægari og rigning eða skúrir um land allt. Hiti 8 til 16 stig, svalast á Vestfjörðum.

Á mánudag (frídagur verslunarmanna):
Norðaustan 8-13 m/s og dálítil rigning NV til, en annars hæg breytileg átt og skúrir. Hiti 8 til 15 stig, mildast sunnan heiða.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Austlæg eða breytileg átt og dálítil rigning eða skúrir, einkum V til. Hiti 7 til 14 stig.

/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir