Spennandi ár framundan hjá Handbendi brúðuleikhúsi

Mynd af Facebook-síðu Handbendi brúðuleikhúss.
Mynd af Facebook-síðu Handbendi brúðuleikhúss.

Á Facebook-síðu Handbendi brúðuleikhúss á Hvammstanga segir frá því að árið 2021 marki upphaf nýrra og spennandi verkefna. Ljóst er að alþjóðlega brúðulistahátíðin á Hvammstanga verður haldin næsta haust og þá hefur Handbendi fengið lífsnauðsynlega styrki vegna verkefna ársins og munar þar mest um styrk úr EES-sjóðnum vegna samstarfsvekefnisins Caravan.

Þar er Handbendi brúðuleikhús í samstarfi við Pro Fit Arts í Tékklandi og Arctic Culture Lab í Noregi. Verkefnið, sem kallast sem fyrr segir Caravan, er til þriggja ára og fékk það heildarstyrk upp á 226.000 evrur (rúmar 35 milljónir ISK). „Þetta er stórt fjölþjóðlegt verkefni sem okkur hlakkar mikið til að deila með ykkur um land allt. Það gleður okkur líka að geta staðfest að alþjóðlega brúðulistahátíðin á Hvammstanga (Hvammstangi International Puppetry Festival) verður haldin næsta haust og hefur fengið stuðning frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra upp á 1,5 milljónir krónur,“ segir á FB-síðu Handbendis.

Þá veitti Uppbyggingarsjóður Handbendi einnig stofn- og rekstrarstyrk upp á 1 milljón króna og Sumarleikhús æskunnar í Húnaþingi vestra var styrkt af Húnaþingi vestra um 150 þús kr.

Handbendi brúðuleikhús hefur starfað á Hvammstanga frá árinu 2015 og þar er brúðulistakonan Greta Clough við stýrið.

Fleiri fréttir