Steikarsamloka og smá sætt í eftirrétt

Ég veit um fátt betra en góða steikarsamloku með nautakjöti, bearnaise og fröllum. Þegar ég var að vinna í Reykjavík, nánar tiltekið á Laugarveginum, elskaði ég að rölta á veitingastaðinn Vegamót í hádeginu og fá mér eina slíka – því hún klikkaði aldrei. Við Binni gerum stundum svipaða samloku þegar við komumst yfir gott nautakjöt því það skiptir svo miklu máli ásamt sósunni.

AÐALRÉTTUR
Steikarsamloka
   nautakjöt
   snittubrauð úr Sauðárkróksbakaríi
   rauðlaukur
   sveppir
   hvítlaukskrydd
   salt og pipar

Aðferð: Takið sveppina og laukinn og skerið í bita. Ekki of fína og ekki of grófa. Steikið á pönnu með smjöri og hvítlaukskryddi. Hitið grillið og saltið og piprið nauta-kjötið áður en þið setjið á grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið, ekki of lengi því þá verður það þurrt. Skerið svo í þunnar sneiðar þegar það hefur fengið að kólna smá.

Svo er það bernaisesósa
   3 eggjarauður
   300 g íslenskt smjör
   2 msk. estragon
   1 tsk. nautakraftur í duftformi
   2 msk. bernaise essense
   pipar eftir smekk

Aðferð: Eggjarauðurnar eru þeytt-ar mjög vel þangað til þær eru orðnar léttar og ljósar. Smjörið sett í skál og hitað í örbygjunni í u.þ.b. eina mínútu kannski örlítið lengur. Kryddunum og essense bætt við eggjarauðurnar. Því næst er smjör-inu hellt, mjög varlega og hægt, út í eggjablönduna og munið að hræra á meðan. Þá er sósan tilbúin. Settu eitt skorið snittubrauð á disk, stundum rista ég það aðeins á pönnu áður. Set slummu af sósu á brauðið. Set svo kjötbita, sveppina og laukinn og svo aftur sósu og brauðlok.

EFTIRRÉTTUR
Litlir maregnsostaplattar með saltkaramellu

Sá þessa mynd og uppskrift á MS.is og ákvað að yfirfæra hana aðeins á það sem mér þykir best.
   Saltkaramella:
   200 g sykur
   100 g smjör
   120 ml rjómi frá Gott í matinn
   1 tsk. salt

Aðferð: Best er að byrja á karamell-unni og leyfa henni að kólna á meðan kökurnar eru bakaðar. Setjið sykur í pott yfir meðalháum hita og hrærið stanslaust þar til sykurinn hefur bráðnað og er orðinn gullinbrúnn að lit. Setjið svo smjör saman við og hrærið vel saman. Blandið rjómanum varlega saman við og hrærið. Látið kara-melluna sjóða í rúma mínútu. Slökkvið undir pottinum og setjið salt saman við og hrærið vel.

Marengs:
   3 eggjahvítur
   180 g sykur
   ½ tsk. vínsteinslyftiduft
   ½ tsk. maísenamjöl
   ½ tsk. salt

Aðferð: Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og myndið níu jafn-stóra hringi, eða fleiri. Það fer eftir því hversu stórar kökur þú vilt hafa. Stillið ofninn á 120 gráður. Þeytið eggjahvítur ásamt vínsteins-lyftidufti og salti. Blandið saman maísenamjöli og sykri í skál. Blandið sykrinum smátt og smátt saman við eggjahvíturnar og þeytið þar til marengsinn er orðinn stífur og stendur. Setjið um 2 msk. af marengs inn í hvern hring og lagið marengsinn til með skeið. Setjið um 1 tsk. af karamellu ofan á hverja marengsköku og hrærið kara-mellunni saman við með tannstöngli. Gott er að mynda smá holu í miðjunni á kökunni fyrir ostakökuna. Bakið í 40 mínútur eða þar til marengsinn er orðinn þurr viðkomu.

Ostakaka:
   180 ml rjómi
   4 msk. flórsykur
   170 g rjómaostur
   1 msk. sýrður rjómi
   2 tsk. vanilludropar
   hunangsristaðar hnetur

Aðferð: Þeytið rjóma og flórsykur saman þar til rjóminn stendur. Passið þó að þeyta hann ekki of mikið. Setjið rjómann í aðra skál. Þeytið því næst rjómaostinn ásamt sýrða rjómanum og vanilludropum þar til ostablandan er orðin slétt og fín. Blandið rjómanum saman við ostablönduna með sleif og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið rjómaostablönduna ofan á hverja marengsköku, um 2 msk. Saxið hneturnar eða lakkrís eða það sem ykkur langar að hafa ofan á og setjið á hverja köku fyrir sig ásamt karamellu.

Verði ykkur að góða

Sigga sigga sigga

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir