Þrír stærðfræðisnillingar í FNV fá viðurkenningu
Nú í morgun afhenti Jón F Hjartarson skólameistari FNV þremur nemendum skólans viðurkenningu fyrir frammistöðu þeirra í stærðfræðikeppni framhaldsskólanema sem haldin var nýlega.
Það voru þeir Hannes Geir Árdal Tómasson, Tómas Ingi Úlfarsson og Óskar Bjarki Helgason sem allir eru á Náttúrufræðibraut FNV sem náðu þessum frábæra árangri.
Skólameistari afhenti þeim bók að gjöf, Síðasta setning Fermats sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út. Viðstaddir afhendinguna voru stærðfræðikennararnir Grétar Karlsson, Björn Friðrik Björnsson, Ásgeir Aðalsteinsson og Kristján Halldórsson og til gamans má geta að Jón F kenndi lengi stærðfræði við FNV ásamt því að stjórna skólanum.
Nú tekur við þjálfun kappanna þriggja fram að úrslitakeppninni sem fram fer á vorönn. Þeir nemendur FNV, sem hafa tekið þátt í keppninni undanfarin ár, hafa staðið sig vel og athygli vekur hve oft þeir hafa verið í hópi efstu nemenda. Að þessu sinni voru fjórir nemendur af Norðurlandi sem komust áfram, þrír úr FNV og einn frá Menntaskólanum á Akureyri og sýnir þessi árangur að Norðurland vestra á hér framúrskarandi skóla með frábæru starfsliði og nemendum.
Þess má geta að þeir Hannes Geir, Tómas Ingi og Óskar Bjarki tóku allir þátt í stærðfræðikeppni 9. bekkinga sem FNV hefur staðið fyrir frá 1998 og stóðu sig með miklum ágætum.
Í lokin má til gamans geta að tveir kennarar FNV voru í landsliði Íslands á fyrri árum, Grétar Karlsson í stærðfræði og Kristján Halldórsson í eðlisfræði.