Þuríður Harpa bloggar frá Delhí 13. júlí 2010

Við höldum áfram að fylgjast með ævintýrum Þuríðar Hörpu í stofnfrumumeðferð hennar á Indlandi. Gefum Þuríði orðið; -Klukkan er að orðin tíu að kvöldi hér, heima á Íslandi er klukkan rúmlega fjögur.

Við erum að komast inn á Delhí tímann enda farin óguðlega snemma á fætur hér að íslenskum tíma. Í gærkvöldi gekk hér á með rosalegri rigningu, vindi og fjólubláu þrumuveðri, ég segi fjólublátt því himininn náði aldrei að verða dimmur þar sem eldingarnar dönsuðu og gneistuðu af sér hverju himinbálinu á fætur öðru. Mamma var í essinu sínu, enda hennar uppáhaldsveður úti, eins og barn á gamlárskveldi, glampandi af ánægju yfir þessu skemmtiefni sem kvöldið í Delhí bauð uppá. Í morgun las ég svo í Delhí Times að amk. 12 manns hefðu dáið hér í rigningunni í gær, þar af fengu 6 manns raflost þegar rafmagnslínur slitnuðu. Hundruð trjáa brotnuðu og mikið vatn flæddi inn í hýbíli fólks. Fólk var stopp í umferðinni í allt að 5 tíma. Skrýtið og hér vorum við inn á herbergi og fögnuðum hverri eldingunni á fætur annarri, öldungis ónæm fyrir þeirri vá sem þær báru með sér. Við fögnuðum líka töskunum okkar sem komu um hálfáttaleytið, það var mikill léttir að þurfa ekki að spóka sig um á bláu spítalanáttfötunum í endurhæfingunni. Harðfiskur, Ora fiskibollur, Kaffitár kaffi, íslenskt smér og hangiálegg komu upp úr töskum móður minnar og svo að sjálfsögðu Nóa konfekt. Augnablik voru nærri jól. Í morgun kl. átta vaknaði ég við bank karlhjúkkunnar, hann vildi fá þvagprufu frá mér hið snarasta, það var lítið annað að gera en hlýða. Ég sem hafði verið svo ánægð að eiga ekki að mæta í endurhæfingu fyrr en kl. hálfellefu. Ég mætti með spelkurnar til Shivanni og hún tók út gönguna, sumt hafði skánað en ég var nú ekki alveg perfect ennþá, sagði hún, ég fann það líka að ég þarf smá tíma til að venjast göngugrindinni hér eftir að vera búin að æfa mig að öðruvísi grind heima. Eftir hádegið var svo boltinn og dýnuæfing á gólfi, (nei, ekki með borða og svoleiðis) nú lét hún mig gera nýja æfingu sem fellst í að byrja á að skríða á fjórum fótum fram og til baka og síðan fikra ég mig upp rimlana þar til ég stend upprétt á hnjánum. Svo á ég að setjast og reisa mig upp til skiptis og reyna að nota hendurnar eins lítið og ég kemst af með. Ég ætla bara að segja ykkur að ég nota hendurnar og kemst sko ekki af með annað. Mér gekk þetta hinsvegar vel þ.e. ég gat staðið án þess að þurfa að ríghalda mér í rimlana og þakka ég það sjúkraþjálfunni minni henni Auði, hún hefur látið mig standa á hnjánum og reynt á ýmsan máta að örva vöðvavirkni í mjöðum og bakhluta á mér, enda var Shivanni alveg hissa á hvað mér tókst þetta vel. Eftir æfingar fórum við á röltið, bróðir minn var við stjórnvölinn á hjólastólnum og þrusaði mér í veg fyrir hin ýmsu farartæki við uppskárum þónokkur flaut þar sem bílstjórar sáu sitt óvænna að flauta til að ekki yrði árekstur. Heppilegt að ég verð ekki bílveik og já, heppilegt að ég er ekkert rosalega bílhrædd, ég held ég hefði alveg getað orðið bæði í hjólastólnum í dag með ekkert kontról á ökumanninum. Það var öllu varfærnari ökumaður sem stýrði mér heim á stólnum, menn fengu nú heyra það óþvegið á íslensku sem voru í vegi fyrir okkur þannig að við komumst ekki upp á gangstéttir, hún var orðin svo reið og pirruð á tillitsleysinu við okkur að hún var farin skammast við mig á ensku og þá á íslensku. Þegar heim kom sagði ein hjúkkan mér að ég færi í sprautu á morgun, eftir seinni parts æfingu, upp á þriðju hæðinni hér. Nú fæ ég sprautur djúpt í vöðva við hrygginn, frá svæðinu þar sem skaðinn er og niður að rófubeini. Hrikalega gott að þurfa ekki að fara á hinn spítalann strax en ég held ég þurfi bara að liggja í 4 tíma eftir þessa sprautu.

Eitt hefur breyst hér varðandi matseðilinn, nú er betur útlistað á seðli hvað fylgir grænmetisrétti og hvað fylgir kjötæturéttinum, hinsvegar hefur maturinn ekkert breyst, því miður. Bróðir minn fékk sér banana hér um daginn og hafði orð á að hann væri öðruvísi á bragðið en venjulega, hann langar ekki í fleiri banana hér

Fleiri fréttir