Tvö ár síðan að Húnaþing vestra tók á móti sýrlenskum fjölskyldum
Um þessa mundir eru liðin tvö ár frá því að Húnaþing vestra tók á móti fimm sýrlenskum fjölskyldum með samningi við félags- og barnamálaráðuneytið um móttöku kvótaflóttafólks. "Þessi tvö ár hafa verið gefandi og lærdómsrík fyrir allt samfélagið", segir á vef Húnaþings vestra.
Mótttaka flóttamanna var leidd af Húnaþingi vestra í samvinnu við Rauða krossinn og stuðningsfjölskyldur á þeirra vegum. Samfélagið allt er einnig búinn að vera virkur þátttakandi í verkefninu frá upphafi. Því er óhætt að segja að það hafi verið sterkur hópur sem vann þétt saman í þessu verkefni. Aðlögun fólksins hefur gengið vel og eru þau virkir þátttakendur í samfélaginu. Öllum þeim sem hafa komið að móttökunni sl. tvö ár eru færðar miklar þakkir fyrir framlag þeirra.
Í tilefni þess að verkefninu er nú formlega að ljúka var efnt til hófs í Félagsheimilinu Hvammstanga þar sem sýrlenskri og íslenskri menningu var teflt saman. Þar var sungið, dansað, drukkið sýrlenskt kaffi og te og smakkaður sýrlenskur matur. Gestir gátu fengið nafnið sitt ritað á sýrlensku ásamt því að máta sýrlenskan fatnað.
/SMH