Uppsteypa, sjöunda liðið í Meistaradeild KS
Sjöunda og næstsíðasta liðið sem kynnt er til leiks í Meistaradeild KS í hestaíþróttum þetta tímabilið er lið Uppsteypu. Liðsstjóri þess liðs er skagfirski Húnvetningurinn Elvar Logi Friðriksson, tamningamaður, uppalinn í Lýdó en býr nú á Hvammstanga.
Með honum eru reiðkennararnir Randi Holaker og Haukur Bjarnason þjálfarar og hrossaræktendur á Skáney í Reykholtsdal í Borgarfirði, Ísólfur Líndal Þórisson reiðkennari við Háskólann á Hólum, þjálfari á Sindrastöðum á Lækjamóti í Vestur-Húnavatnssýslu og sigurvegari deildarinnar 2019 og Hans Kjerúlf hrossaræktandi og tamningamaður á Kollaleiru í Reyðarfirði.
Keppt verður í fjórgangi í reiðhöllinni Svaðastöðum á morgun miðvikudag 3. mars og hefst keppni kl. 19:00. Viðburðurinn verður sýndur beint á Tindastóll TV.
Gæðingafimi fer fram í Léttishöllinni á Akureyri 19. mars en slaktaumatöltið 9. apríl, fimmgangur 21. apríl og loks tölt og skeið þann 7. maí fara fram í reiðhöllinni Svaðastöðum.