Vilja aukinn veganisma

Mynd af v-mark.org/is/
Mynd af v-mark.org/is/

Lögð var fram í morgun ný þingsályktun undir forystu Ágústs Ólafs Ágústssonar og Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur, ásamt öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar um markvissar aðgerðir til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis (vegan) í þeim tilgangi að auka dýravelferð, draga úr hamfarahlýnun, stuðla að bættri auðlindanýtingu og bæta heilsufar fólks.

Í tilkynningu Ágústs Ólafs til fjölmiðla segir að hið opinbera hafi margs konar skyldum að gegna þegar kemur að framboði og eftirspurn eftir matvælum. Stjórnvöld styrki ýmsa matvælaframleiðslu m.a. með búvörusamningum og gegni einnig veigamiklu hlutverki í fræðslu, bættu heilsufari og lýðheilsu. Flutningsmenn leggja því til að innlend grænmetisframleiðsla verði styrkt til muna.

„Þá standa stjórnvöld einnig fyrir margs konar innkaupum á fæði s.s. í skólum, stofnunum og fyrirtækjum og er nauðsynlegt að stórauka grænkerafæði á boðstólnum þar. Dýravelferð og hagsmunir neytenda eru einnig eitt af hlutverkum hins opinbera sem ber einnig að hafa í huga m.a. við alla matvælaframleiðslu, vörumerkingar, tolla og vörugjöld. Loks gegna stjórnvöld lykilhlutverki þegar kemur að aðgerðum gegn hamfarahlýnun, loftslagsbreytingum og allri auðlindanýtingu í landinu.

Að mati flutningsmanna helst þetta allt saman í hendur og er brýn þörf fyrir hið opinbera að skoða þessi mál heildstætt með það að markmiði auka neyslu á grænkerafæði og framboði þess sem víðast. Flutningsmenn leggja áherslu á að þótt neytendur hafi að sjálfsögðu valfrelsi þegar kemur að neyslu matvæla þá er hlutverk hins opinbera mikilvægt í þessum efnum.

Aukin neysla grænkerafæðis hefur ýmsa kosti í för með sér og svarar kalli nútímans hvort sem litið er til loftslagsmála, dýravelferðar eða heilsufars,“ segir í tilkynningunni.

Tillöguna í heild sinni má finna HÉR 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir