21 flóttamaður væntanlegur í næsta mánuði

Frá Blönduósi. Mynd:FE
Frá Blönduósi. Mynd:FE

Íbúum Blönduósbæjar mun fjölga um 21 í næsta mánuði þegar hópur flóttamanna, fjórar fjölskyldur frá Sýrlandi, flytur til bæjarins. Um er að ræða eina fjögurra manna fjölskyldu, eina fimm manna og tvær sex manna, þar af eru 12 börn og ein 17 ára stúlka. Sagt er frá þessu á Huni.is í dag.

Eins og Feykir hefur greint frá áður samþykkti sveitarstjórn Blönduósbæjar í febrúar síðastliðnum beiðni frá félagsmálaráðuneytinu þess efnis að taka á móti hópi flóttafólks en áður hafði verið haldinn kynningarfundur með ráðuneytinu fyrir sveitarstjórnarfólk og aðra hagsmunaaðila. Síðan þá hefur staðið yfir margvíslegur undirbúningur fyrir komu hópsins. Haldinn var íbúafundur um málefnið sem liðlega 100 manns sóttu. Þar mættu fulltrúar frá Rauða krossinum og fulltrúi úr félagsmálaráðuneytinu. Farið var yfir aðdraganda og stöðu mála og íbúum kynnt hvernig staðið yrði að móttöku fólksins. Í mars stóð svo Rauði krossinn í Húnavatnssýslum fyrir fræðslufundi um menningu og sögu Sýrlands og átökin þar undanfarin ár og voru þeir sem áhuga höfðu á að gerast sjálfboðaliðar sérstaklega hvattir til að mæta. Einnig hefur Rauði krossinn haldið námskeið fyrir sjálfboðaliðana um móttöku flóttafólksins þar sem farið var nánar ofan í viðfangsefni verkefnisins.

Nú vinnur Blönduósbær að undirbúningi fyrir komu fólksins, s.s. að útvega því húsnæði, ráða verkefnastjóra og túlk. Almennt er talið að bæjarbúar á Blönduósi séu jákvæðir gagnvart því að taka á móti hópnum, að því er segir á Huni.is.

Tengdar fréttir:

Byggðarráð Blönduósbæjar ræðir um móttöku flóttafólks
Sveitarstjórn Blönduósbæjar samþykkir móttöku flóttafólks
Reiknað með 50 manna hópi flóttafólks til Blönduóss og Hvammstanga
Fundir Rauða krossins um sögu Sýrlands í tengslum við móttöku flóttamanna

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir