Fyrirlestur í Verinu um örplast í hafinu við Ísland

Verið á Sauðárkróki. Mynd: Veridehf.is
Verið á Sauðárkróki. Mynd: Veridehf.is

Valtýr Sigurðsson, starfsmaður BioPol ehf. á Skagaströnd og Náttúrustofu Norðurlands vestra heldur fyrirlestur í Verinu á Sauðárkróki næstkomandi föstudag kl. 9:00. Fyrirlesturinn nefnist „Sources and Pathways of Microplastics to the Icelandic Ocean“ (Örplast í hafinu við Ísland - helstu uppsprettur, magn og farvegir í umhverfinu). Í fyrirlestri sínum mun Valtýr kynna niðurstöður skýrslu sem hann vann fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið um örplast á Íslandi. Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku.

Í skýrslunni kemur fram að langstærstur hluti örplasts sem berst út í umhverfið hér á landi kemur frá bifreiðaumferð og valda slit á dekkjum og vegmerkingum um ⅘ allrar örplastslosunar í hafið umhverfis landið. Aðrar stórar uppsprettur eru vegna húsa- og skipamálningar og affalls frá þvotti á fatnaði úr gerviefnum. Helstu farleiðir örplastst til hafs eru með rennandi vatni gegnum skólp og ræsi.

Hjólbarðar innihalda plast sem verður að örplasti við slit og samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar eru hjólbarðar langstærsta uppspretta örplasts hér landi eða um 75%. Áætlað er að frá þeim berist árlega 160-230 tonn til sjávar. Í nágrannalöndum okkar eru hjólbarðar einnig langstærsta einstaka uppspretta örplasts. Plastagnir úr vegmerkingum koma næst hér á landi, 6-43 tonn, síðan plast úr húsamálningu, 15-36 tonn, þá plastagnir frá þvotti, 8-32 tonn og plast úr skipamálningu, 3-10 tonn.

Aðrar uppsprettur eru mun smærri, svo sem gervigrasvellir, snyrtivörur og urðunarstaðir. Farleiðir örplasts til hafs eru ólíkar eftir uppsprettum og misflókið að meta stærð þeirra. Af skýrslunni má ráða að 90% eða meira af örplasti sem myndast á landi berist með regnvatni til sjávar. Helstu farleiðir örplasts í hafið eru því með rennandi vatni af vegum, götum og stéttum, m.a. í gegn um niðurföll og ræsi.

Gagnvirka útgáfu af skýrslunni er að finna hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir