Jólalag dagsins – Jólaklukkur

Það er nú varla hægt að vera með jólalög án þess að fá Hauk Morthens til að syngja eins og eitt lag. Jólalag dagsins heitir Jólaklukkur upp á okkar ylhýra mál og er að finna á jólaplötunni Hátíð í bæ sem kom út hjá Hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur fyrir jólin 1964. Á frummálinu heitir lagið Jingle Bells og er eitt þekktasta ameríska lag í heimi samið af James Lord Pierpont (1822–1893).

Upphaflega var lagið gefið út með heitinu The One Horse Open Sleigh haustið 1857 og hefur því verið haldið fram að upphaflega hafi það verið skrifað sem drykkjusöngur. Þó að lagið hafi í fyrstu ekki verið tengt jólum gerðist það þó síðar eftir að það var flutt af Johnny Pell í Ordway Hall 16. september 1857.

Íslenska textann gerði Loftur Guðmundsson (6. júní 1906 – 29. ágúst 1978) sem best er þekktur fyrir störf sín sem þýðandi og söngtextahöfundur. Hann þýddi meðal annars bækur Hergé um Tinna (Tintin) og gerði texta við mörg sönglög Oddgeirs Kristjánssonar. Loftur stundaði einnig önnur ritstörf og samdi meðal annars leikritið Brimhljóð, kvikmyndasöguna Síðasti bærinn í dalnum eftir samnefndri kvikmynd og nokkrar barnabækur.

Gústav Haukur Morthens (17. maí 1924 – 13. október 1992) var einn frægasti söngvari á Íslandi á seinni hluta 20. aldar. Hann fæddist við Þórsgötu í Reykjavík, sonur Edvards Morthens, norsks manns og Rósu Guðbrandsdóttur ættaðri úr Landssveit. Á WikiPediu segir að Haukur hafi verið 11 ára þegar hann kom fyrst fram með Drengjakór Reykjavíkur á söngskemmtan í Nýja bíó og söng einsöng. Svo liðu árin, Haukur þroskaðist sem og feimnin sem átti tök í honum. Í Alþýðuprentsmiðjunni þar sem hann var við nám, þá 18 ára, voru tvær stúlkur sem voru að undirbúa skemmtun fyrir Alþýðuflokkinn. Þær voru ólmar að fá þennan unga og glæsilega mann til að syngja á skemmtuninni enda höfðu fregnir borist um hæfileika hans. Haukur var tregur til enda feiminn en gat vart neitað svo fögrum meyjum og sló til. Þar með var teningunum kastað og þegar Haukur Morthens hóf feril sinn 19 ára með hljómsveit Bjarna Böðvarssonar eignaðist þjóðin einn sinn frægasta, ástsælasta og þekktasta dægurlagasöngvara fyrr og síðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir