Öll sveitarfélög á Íslandi verði barnvæn

Frá vígslu ærslabelgs á Sauðárkróki. Mynd: PF.
Frá vígslu ærslabelgs á Sauðárkróki. Mynd: PF.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, undirrituðu tímamótasamstarfssamning fyrir réttindi barna á Íslandi. Undirritunin fór fram í anddyri Salarins í Kópavogi í morgun.

Í tilkynningu frá félagsmálaráðuneyti segir að um sé að ræða samning um stuðning félagsmálaráðuneytisins við innleiðingu á verkefninu Barnvæn sveitarfélög UNICEF, með það fyrir augum að stuðla að því að íslensk stjórnvöld og öll sveitarfélög á Íslandi hafi á næsta áratug hafið markvissa innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og tileinkað sér barnaréttindanálgun í sínum verkefnum, stefnumótun og ákvörðunum. Þar með skipar Ísland sér í fremstu röð meðal þeirra ríkja sem hvað best standa vörð um réttindi barna. Samningurinn er undirritaður í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna þann 20. nóvember næstkomandi.

Samhliða því að bjóða sveitarfélögum á Íslandi að taka þátt í innleiðingunni verður öllum sveitarfélögum á landinu boðið að nýta sér svokallað mælaborð um velferð barna innan sveitarfélagsins. Verður það gert í samvinnu við Kópavogsbæ sem leitt hefur þróunarverkefni þess efnis í samstarfi við félagsmálaráðuneytið og UNICEF á Íslandi. Sveitarfélög munu þannig geta greint með markvissum hætti þau tölfræðigögn sem til eru um velferð barna innan sveitarfélagsins og nýtt við stefnumótun, fjárhagsáætlanagerð og ákvarðanatöku.

Hvað eru barnvæn sveitarfélög?
Barnvæn sveitarfélög er verkefni sem styður markvissa við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga. Hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, sem hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga út um allan heim frá 1996.  Þótt ríkisvaldið beri formlega ábyrgð á að uppfylla Barnasáttmálann verður sáttmálinn aldrei að fullu innleiddur inn í íslenskt samfélag, nema í samstarfi við íslensk sveitarfélög. Það eru sveitarfélögin sem annast stærstan hluta þeirrar þjónustu sem hefur bein áhrif á daglegt líf barna.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Mikilvæg skref í þágu réttinda barna
„Með barnasáttmálanum höfum við komið á afar mikilvægum alþjóðlega viðurkenndum ramma um rétt barna og skuldbindum okkur til að standa vörð um þau réttindi. Til að tryggja raunverulega barnvænt samfélag þurfa börn þó að njóta þeirra réttinda sem sáttmálinn kveður á um í sínu nærumhverfi á degi hverjum. Á það við á heimilum, í skólum og hvar sem þau dvelja. Ég hef skynjað mikinn áhuga sveitarfélaga á að rækja þetta hlutverk sitt og er mér mikil ánægja að geta í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmálans tryggt stuðning við þá góðu vinnu sem þar fer fram. Samhliða er unnið að breytingum hjá Stjórnarráðinu með það að markmiði að í náinni framtíð verði Ísland allt barnvænt,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra við undirritunina.

Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, er afar ánægður með samstarfið og þau mikilvægu skref í þágu réttinda barna á Íslandi sem það felur í sér: „Sveitarfélög eru sú stjórnsýslueining sem hefur mest, bein áhrif á réttindi og velferð barna á Íslandi. Það er einstakt að stjórnvöld ríkis styðji jafndyggilega við innleiðingu Barnasáttmálans og þessi samningur ber með sér. Með honum skipar Ísland sér í fremstu röð þjóða í þeim efnum og er því einstaklega gleðilegt að ganga til samstarfs við ráðuneytið og sífellt fleiri sveitarfélög á 30 ára afmæli Barnasáttmálans. Aukin áhersla á réttindi barna í sveitarfélögum getur stuðlað að jákvæðri byltingu fyrir börn hér á landi og aukið nýsköpun í þjónustuveitingu sveitarfélaga fyrir börn. Við erum viss um að það efli einnig samtal á milli kynslóða, samtal sem byggir á gagnkvæmri virðingu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir