Samningar vegna styrkja til fjarvinnslustöðva undirritaðir

Frá undirritun samninganna. Mynd: Byggdastofnun.is
Frá undirritun samninganna. Mynd: Byggdastofnun.is

Sl. þriðjudag undirritaði forstjóri Byggðastofnunar samninga um styrki til fjarvinnslustöðva í tengslum við byggðaáætlun 2018-2024. Undirritunin fór fram í fundarsal Byggðastofnunar og við það tækifæri kynntu styrkþegar þau verkefni sem styrk hlutu.

Á heimasíðu Byggðastofnunar segir: „Markmiðið með framlögum vegna fjarvinnslustöðva er annars vegar að koma opinberum gögnum á stafrænt form og hins vegar að fjölga atvinnutækifærum í landsbyggðunum. Við mat á umsóknum var stuðst við þætti eins og íbúaþróun, samsetningu atvinnulífs og atvinnustig og þróun á starfsmannafjölda viðkomandi stofnunar undanfarin ár.“ 

Fjögur verkefni fengu framlag og stuðning og er eitt þeirra við Rannsóknasetur HÍ á Norðurlandi vestra. Vilhelm Vilhelmsson forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Skagaströnd sagði frá verkefninu en það er um gagnagrunn sáttanefndabóka sem eru gjörðabækur sáttanefnda. Í verkefninu felst að allar varðveittar bækur sáttanefnda á tímabilinu 1798-1936 verða myndaðar og gerðar aðgengilegar á stafrænu formi. Fyrirmynd þessa er dómabókagrunnur Þjóðskjalasafns. Samstarf um verkefnið er við Þjóðskjalasafn og héraðsskjalasafn Skagfirðinga.

Á Facebooksíðu Rannsóknasetursins segir að styrkurinn verði nýttur til að ráða starfsmann sem mun ýta verkefninu á flot og muni það verða mikil lyftistöng fyrir rannsóknir á sögu Íslands á 19. og 20. öld.

Verkefnin fjögur sem hlutu styrk eru:

  • Skönnun og skráning þinglýstra skjala. Styrkþegi Sýslumaðurinn á Vestfjörðum. Verkefnið verður styrkt um 6 milljónir króna á ári í þrjú ár, samtals 18 milljónir króna.
  • Þjóðfræðistofan á Ströndum. Söfnun upplýsinga og skráning menningararfs. Styrkþegi Háskóli Íslands. Verkefnið verður styrkt um 6 milljónir króna á ári í þrjú ár, samtals 18 milljónir króna.
  • Fjarvinnsla á Djúpavogi. Skráning minningarmarka. Styrkþegi Minjastofnun Íslands. Verkefnið verður styrkt um 21 milljón króna.
  • Gagnagrunnur sáttanefndabóka. Styrkþegi Háskóli Íslands. Verkefnið verður styrkt um 9 milljónir króna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir