Að brosa og brosa, er það, það sama? :: Áskorendapenni Guðrún Helga Magnúsdóttir Lækjarbakka Miðfirði

Hvernig við komum fram við hvert annað er mismunandi en með góðum, skilningsríkum og eflandi samskiptum getum við hjálpað fólki í gegnum daginn. Við nefnilega könnumst flest við það að eiga góða daga og svo einnig slæma daga.

Á þessum slæmu dögum setjum við fyrr í „brýrnar“ og förum að svara skætingslega eða bara sleppa því að svara. Fyrir hvern er það gott? Í stuttu svari hjálpar það hvorki manneskjunni sem er að eiga slæman dag né manneskjunni sem fékk leiðinlegt viðmót.

Að virða gleði og hamingju hvers annars er mikilvægur þáttur í því að efla okkur sem fallega og góða manneskju. Flest viljum við láta gott af okkur leiða og þess vegna þurfum við stöðugt að minna okkur á að sýna tillit.

Það er alltaf verið að tönglast á þessu sama. Horfðu á þig sjálfa/n í speglinum og brostu til þín. En það skemmtilega er að við ættum/eigum að gera það. Brostu til þín og meintu það. Finndu þinn kærleika og þína hamingju streyma frá þér og til þín. Vertu ljósberi frá þér til þín og til annarra. Notaðu góð og falleg orð sem segja það sem segja þarf. Lífið verður bjartara, samskiptin verða betri og vegurinn sem heldur áfram að vísa okkur um lífið virðist alveg fær.

Ég hvet ykkur til að setjast niður, lygna aftur augum, draga andann djúpt alla leið ofan í kvið, leyfa kviðnum að blása út. Halda loftinu inni í þrjár sekúndur, leyfa loftinu að flæða ofurvarlega út um hringlóttar varir, þrýsta kviðnum inn eins og þú sért að tæma loftið úr blöðru. Endurtekur 3-5 sinnum og á meðan þú setur alla þína einbeitingu að þessu þá leyfir þú innra brosinu að flæða um líkamann allan. Tæmir hugann og leyfir þér einungis að vera í nokkur andartök.

Um leið og ég bið fólk um taka lífinu ekki of alvarlega þá skora ég á vinkonu mína, Ástrós Kristjánsdóttur að taka við pistlakeflinu.

Áður birst í 39. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir