Ég er bara svo spenntur!

Guðráður Friðrik Jónsson hringdi í Dreifarann í dag og sagðist hreinlega vera að deyja úr spennu. Guðráður hætti að vinna í fyrra, enda kominn á aldur, og hefur einbeitt sér að sjónvarpsglápi. „Já, ég hérna lét mér nú alltaf nægja að horfa á ríkisrásina en þegar þeir fóru að sýna Brúna þá keypti ég mér aðgang að norrænu stöðvunum.“

Af hverju gerðirðu það Guðráður? -Sko hérna Danirnir og Svíarnir, þeir eru að sýna Brúna degi á undan okkur Íslendingum og ég er bara svo spenntur að ég bara varð að kaupa aðgang að DR og þarna sænsku stöðinni. En það kom upp eitt vandamál.

Nú? -Já, ég skil ekki þessa dönsku og eiginlega varla sænskuna heldur. Svo ég varð að kaupa mér annað sjónvarp.

Dreifarinn sjónvarp Guðráður er mjög ánægður með sjónvörpin sín.

Annað sjónvarp?! -Já, ég get sko lesið dönskuna ágætlega og af því að hérna danirnir eru með texta þegar Saga og hinir Svíarnir eru að tala, og svo öfugt, þá semsagt fann ég þá snilldarlausn að hafa tvö sjónvörp hlið við hlið.

Lestu semsagt textann á sitt hvorri stöðinni? -Já. Ég horfi á dönsku stöðina þegar Svíarnir tala og sænsku stöðina þegar Danirnir tala. Konan segir að þetta sé bara bilun en hvað á maður að gera. Ég er bara svo spenntur að ég er alveg að deyja.

Já hérna, þú ættir kannski að leita til læknis! -Já, þú segir nokkuð, ég er reyndar búinn að panta tíma.

Jæja? -Já, hjá augnlækni, ég held nefnilega að ég sé orðinn rangeygður eftir að ég byrjaði á þessu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir