Aðalgatan ekki malbikuð í sumar
Sýslumannsbrekkan á Blönduósi verður ekki malbikuð í sumar en fram kemur í fundargerð byggðaráðs Blönduósbæjar frá 25. júní sl. að gert hafi verið ráð fyrir 8 millj.kr. kostnaði við framkvæmdina en ekki 16,7 millj.kr. eins og raun ber vitni. Byggðarráð vísaði erindinu til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2015.
Í bréfi frá tæknideild Blönduósbæjar sem tekið var fyrir á fundinum var gert grein fyrir kostnaði við malbikun og lagningu kantsteins við Aðalgötuna. Kostnaður við 1300 fm malbikun er áætlaður 7,3 millj.kr. og við 200 fm kantstein 550 þúsund krónur. Kostnaður við að laga og breyta gangstétt við húsið Tilraun er áætlaður um 500 þúsund krónur. Samtals kostnaður við götuna er því 16,7 millj.kr.
„Í fjárhagsáætlun Blönduósbæjar fyrir árið 2014 var gert ráð fyrir kostnaði við framkvæmdir við jarðvegsskipti og lagnir að upphæð 8. m.kr. Byggðarráð vísar erindinu til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2015,“ segir loks í fundargerð.