ADHD – vitundarvika í V-Hún
ADHD samtökin leggja til að hérlendis verði skipulögð ADHD vitundarvika í skólum og öðrum þjónustustofnunum barna, vikuna 20. – 24. september en víða í Evrópu og í Bandaríkjunum er árlega skipulögð slík vika meðal annars til að stuðla að vitundarvakningu um ADHD og auka skilning gagnvart þeim vaxandi fjölda barna sem glímir við athyglisbrest og ofvirkni.
Í samstarfi við heilsugæslu og félagsþjónustu mun grunnskóli Húnaþings vestra senda daglega stutta fróðleikspistla til allra foreldra nemanda í gegnum Mentor til að auka skilning á ,,Athyglisbresti með ofvirkni” (ADHD).
Samkvæmt rannsókn hjá Íslenskri erfðagreiningu glímir um 7,5% barna hérlendis við ADHD og mörg börn eru jafnframt með ýmsar fylgiraskanir s.s. hegðunarvanda, kvíða, depurð og áráttu/þráhyggju.
ADHD samtökin munu opna vefsíðu fyrir börn sem unnin hefur verið af nemum í margmiðlun við Tækniskóla Íslands. Á þessari vefsíðu er ýmis fróðleikur um ADHD, leiðbeiningar í samskiptum fyrir börn með ADHD, teiknimyndasaga, leikir og fleira áhugavert.
Ýmislegt lesefni og netsíður eru til um ADHD. Sérstaklega er bent á heimasíðu ADHD samtakanna sem er: www.adhd.is. Þar er mikinn fróðleik og gagnlegar upplýsingar að finna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.