Æfingaferðirnar með Keflavík standa upp úr ;; Liðið mitt Halldóra Andrésdóttir Cuyler

Halldóra Andrésdóttir og Marín Rós vinkona hennar á fyrsta leiknum sem hún fór á.
Halldóra Andrésdóttir og Marín Rós vinkona hennar á fyrsta leiknum sem hún fór á.

„Best að byrja á því að þakka Baldri vini mínum kærlega fyrir þetta!“ segir Halldóra Andrésdóttir Cuyler en Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari karlaliðs Tindastóls í körfubolta, skoraði á hana að svara í Liðinu mínu áður en þátturinn og enska úrvalsdeildin fór í frí seinasta vor. Halldóru er auðvelt að staðsetja á Bergstöðum í Borgarsveit í Skagafirði en sjálf segist hún vera ótrúlega heppin að eiga marga staði sem hún geti kallað heimili sitt. „Nánast alveg sama hvert ég er að ferðast þá er ég ansi oft á leiðinni heim. En ég er skráð til heimilis í Virginia Beach, USA, en alltaf á ferðalagi í Skagafirðinum og með hugann í Keflavík,“ segir Halldóra en glæstan feril á hún með liði Keflavíkur í körfuboltanum hér áður fyrr. Starfstitill Halldóru er Business Development Consultant eða fyrirtækja þróunar ráðgjafi ef hann er færður upp á bjagaða íslensku! „Já, og svo auðvitað hobby sauðfjárbóndi í íhlaupum,“ áréttar hún.

Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum og af hverju? -Manchester United – að spyrja af hverju er náttúrulega bara asnalegt, en þeir eru bara langbestir og flottastir.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Alltaf bestir í mínum huga, en held þetta gæti orðið barátta fram á síðustu mínútu. Spurning hvort nágrannarnir eigi eftir að veita smá samkeppni um toppinn, eða hvort Liverpool reyni eitthvað. En þetta verður örugglega góður vetur.

Ertu sátt við stöðu liðsins í dag? -Smá haustbragur á þessu eins og gengur og gerist á þessum tíma árs en margt sem lofar góðu.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Ég er einstaklega lunkin við að lenda í deilum um mál líðandi stunda og held að enski boltinn sé engin undantekning. En þar sem þekking mín á enska boltanum er ekki alveg upp á tíu þá reyni ég nú oftast að halda mér saman, en tekst kannski ekki alltaf!

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Úfff, nú þarf maður að vanda valið af gefnu tilefni – Ætli sé ekki bara best að play it safe og velja bara Alex Ferguson, þó ég hafi aldrei séð hann spila þá var hann allavega geggjaður stjóri og fáir sem toppa hann.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Já, þeir eru orðnir nokkrir.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Já, það er eitthvað búið að safnast upp.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Held að pabbi gamli sé alveg búinn að samþykkja að halda með United, þó hann muni aldrei hvað liðið heitir, en hann þekkir líka ekki nein önnur þannig að þetta sleppur.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Ekki í enska boltanum, þar hefur United alltaf verið #1

Uppáhalds málsháttur? -Úfff, kann orðið voðalega lítið af svoleiðis, en nota mikið „Loving Life and Living the Dream!“ sem er kannski ekki ósvipað og „Lífið er núna“ sem er svo mikið notað hér á klakanum, enda gott að minna sig á að elska lífið og lifa því lifandi.

Einhver góð saga úr boltanum? -Þær eru reyndar mjög margar sem hægt væri að rifja upp úr körfuboltanum en sennilega margar hverjar ekki við hæfi í þetta blað. En fyrir „nokkrum“ árum prófaði ég að æfa fótbolta og þá voru æfingarnar uppi á Nöfunum og strákar og stelpur æfðu saman. Og það gerðist ósjaldan að boltinn rúllaði fram af Nöfunum og þá var nýliðinn sendur á eftir honum. Það er skemmst frá því að segja að fótboltaferli mínum lauk eftir þessa einu æfingu. Sá að ég gæti alveg eins þrammað upp og niður Gilsbunguna eins og að vera þarna.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Það var nú ýmislegt brallað, sérstaklega í keppnisferðalögum í gamla daga. Og vorum við nokkrar í hópnum sem þurftum alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni, sem kom kannski aðeins niður á liðsfélögum eða þeim djörfu foreldrum sem létu sig hafa það að fara með okkur í þessi ferðalög. Vona bara að þeir sem lentu í okkur erfi það ekki við okkur í dag.

Spurning frá Baldri Þór Ragnarssyni: -Hver var skemmtilegasta keppnisferðin og af hverju?

Svar: -Þær eru nú nokkrar, og verð bara að koma því að hvað mér finnst leiðinlegt hvernig þróunin hefur orðið í þessu í gegnum árin, og krakkar í dag virðast ekki upplifa þessa stemmingu eins og við gerðum. Nú er bara farið á einkabílum, allir að gista í heimahúsum eða það er bara brunað fram og til baka. Rútuferðirnar hér í denn voru þannig að það var ein stór rúta tekin og þremur flokkum smalað upp í hana og lagt af stað. Svo var hópunum keyrt í þau íþróttahús sem leikar áttu að fara fram og svo gist í skólastofum eða frístundaheimilum. Þar sem fyrrnefndir hrekkir fengu að líta dagsins ljós. Þannig margt er það sem börnin fara á mis, eins og segir í laginu.
En æfingaferðirnar með Keflavík standa samt held ég upp úr, enda ekki hægt að finna betri hóp til að ferðast með. Og ekki hægt að gera upp á milli Danmörk, Hollands eða Króatíu, enda mjög ólíkar ferðir sem skildu eftir mjög mikið í minningarbankanum sem maður getur yljað sér við og brosað að.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Alex Már Sigurbjörnsson.

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Ef þú gætir farið aftur í tímann og farið á hvaða leik sem er í ensku, hvaða leik myndir þú velja og af hverju?

 Áður birst í 37. tbl. Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir