Alls 185 listar með 2846 einstaklingum í framboði við sveitarstjórnarkosningarnar

Alls eru 185 listar í framboði til 76 sveitarstjórna í kosningunum 29. maí næstkomandi. Á listunum eiga sæti 2846 einstaklingar, eða ríflega 1,2% kjörgengra einstaklinga í landinu. Flestir framboðslistar eru í Reykjavíkurborg, eða átta talsins, sjö í Kópavogsbæ og sex í Akureyrarkaupstað.

Listakosningar í 54 sveitarfélögum

Í 54 sveitarfélögum hafa verið lagðir fram fleiri en einn listi og mun því hlutfallskosning fara þar fram. Kosning er þá bundin við framboð á listum og fulltrúar á hverjum lista ná kjöri í hlutfalli við það atkvæðamagn sem listinn fær. Sjálfkjörið er í fjórum sveitarfélögum á landinu og er Sveitarfélagið Skagaströnd eitt af þeim.

Óbundnar kosningar verða í 18 sveitarfélögum þar sem enginn listi kom fram.  Í óbundnum kosningum eru allir kjósendur í sveitarfélaginu í kjöri, nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því. Kjósendur skrifa þá nöfn og heimilisföng aðal- og varamanna á kjörseðilinn. Tvö sveitarfélög á Norðurlandi vestra verða með óhlutbundnar kosningar, Skagabyggð og Akrahreppur. Að sögn Árna Bjarnasonar formanns kjörstjórnar í Akrahreppi hefur aðeins einn maður formlega óskað eftir því að vera ekki í kjöri en það er Þórarinn Magnússon á Frostastöðum en hann hefur verið í sveitarstjórn árum saman.

Fleiri fréttir