Ásgeir Trausti kominn í nýja hljómsveit
Húnvetnski tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti hefur gengið til liðs við nýja hljómsveit sem hlotið hefur nafnið Uniimog. Ásamt honum eru þeir Guðmundur, Þorsteinn og Sigurður úr Hjálmum í hinu nýja bandi sem er með sína fyrstu plötu í smíðum.
Í viðtali á vísi.is við Guðmund Kristinn Jónsson og Þorstein Einarsson, sem er bróðir Ásgeirs Trausta, kemur fram að hin nýja hljómsveit hafi byrjað þannig að þeir félagar hafi þurft á smá útrás að halda þegar þeir voru á tónleikaferðalagi með Ásgeiri. Þeir eru báðir kenndir við Hjálma, ásamt fjórða meðlimi Uniimog sem er Sigurður Guðmundsson.
„Það má eiginlega segja að Ásgeir sé að gera okkur eins konar greiða til baka, við erum búnir að vera á tónleikaferðalagi með honum út um allan heim en það er mjög gaman að fá hann í bandið,“ segir Þorsteinn í viðtalinu á vísi.is. Þeir félagar eru nú búnir að taka upp heila plötu sem mun líta dagsins ljós á næstu vikum en hún mun bera titilinn, Yfir hafið. „Við tókum upptökubúnað með okkur á tónleikaferðalagið, þannig að hún er tekin upp á hótelherbergjum víðs vegar um heiminn,“ segir Guðmundur um ferlið.
Fyrstu tónleikar sveitarinnar eru ekki komnir í dagbókina en meðlimir sveitarinnar eru sem stendur uppteknir í öðrum verkefnum. Þeir ætla þó að reyna telja í sína fyrstu tónleika sem fyrst.