Bakkabræður - Byggðasögumoli

Bakkabræður búa sig undir að velta niður hrískestinum. Mynd: Byggðasaga Skagafj.
Bakkabræður búa sig undir að velta niður hrískestinum. Mynd: Byggðasaga Skagafj.

Bakkabræður eru þjóðsagnapersónur, frægar fyrir atferli sitt og frábæra heimsku. Sveitfesti þeirra hefur verið nokkurt deilumál því ýmsir hafa viljað eigna sér Bakkabræður, Fljótamenn, Svarfdælingar og jafnvel Öxndælir. Elsta prentaða gerð sagnanna um Bakkabræður er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar sem prentaðar voru árin 1862 og 1864. Handrit þeirra sagna var skrifað af utansveitarmanni, Jóni Borgfirðingi, og lætur hann þá vera frá Bakka í Svarfaðardal. Guðbrandur Vigfússon las hinsvegar prófarkir af sögunum, sem voru prentaðar suður í Leipzig, og hann hefur bætt við neðanmáls: „Mun eiga að vera Bakki í Fljótum“ og vitnar í fyrsta árgang tímaritsins Ármann á Alþingi, prentaðan 1829, sem skrifaður var af Baldvin Einarssyni frá Hraunum í Fljótum. Baldvin segir þar um Sighvat sem er einn sögumanna ritsins: „Enginn getur sagt það um hann Sighvat að hann sé heimskingi og þó er sagt að hann sé ættaður úr Fljótum í Skagafirði sem ætíð hefur verið í munnmælum jafnað saman við Flóa að aulahætti eins og stefið sannar: Tvær eru sveitir, Flói og Fljót/sem flestir saman jafna.“ 

            Eftir að þjóðsögurnar komu út 1864 hóf Jón Norðmann prestur á Barði að safna saman og skrá af Bakkabræðrum margar sögur sem lifandi voru í Fljótum um miðbik 19. aldar og tengir prestur þær tvímælalaust við Bakka á Bökkum. Rekur hann ætt frá Gísla Bakkabróður til Guðmundar Bjarnasonar bónda á Miðmói 1864, en eitthvað mun þó vanta í þá ættfærslu. Nefnir Jón 14 sögur „sem eg man víst eftir að eg hafi heyrt um Bakkabræður.“

            Álitið er að faðir Bakkabræðra hafi búið á Bakka á öndverðri 17. öld og heitið Þorsteinn. Synirnir hétu Eiríkur, Þorsteinn, Gísli og Jón. Þeir bræður voru ákaflega samrýmdir svo að þegar einn ávarpaði annan höfðu þeir jafnan sama formálann; „Eiríkur, Þorsteinn, Gísli, Jón.“Þrír þeirra létust af slysförum sem rekja verður til frámunalegrar óaðgæslu og vitsmunaskorts.

            Fyrsti bróðirinn slysaðist með þeim hætti að þeir voru á sjó allir saman þegar einn þeirra dró brettingshákarl og urðu þeir ráðalausir með að innbyrða hann. Loks fer einn þeirra til og rekur ofan í hann handlegginn og ætlar að kippa honum inn á tálknunum. En hákarlinn beit þegar af honum handlegginn og rak þá maðurinn upp hljóð. Þá segir einn hinna: „Eiríkur, Þorsteinn, Gísli, Jón, hann hljóðar.“ „Hann hljóðar af fögnuði“, segir annar. Áður en þeir komust í land var maðurinn dauður, og urðu þetta ævilok fyrsta bróðurins.

            Einhvern tímann síðar fara bræðurnir þrír upp í fjall að rífa víði til kolagerðar. Rífa þeir nú í ákafa og binda í stóra byrði sem þeir ætla að velta ofan, en verða þá mjög hugsi hvernig þeir geti látið byrðina velta beint ofan að Bakka. Loks segir einn þeirra: „Eiríkur, Þorsteinn, Gísli, Jón, ég sé ráð til þess: Bindiði mig á byrðina, ég skal stýra henni heim að Bakka.“ Að þessu ráði fengnu bundu þeir hann á byrðina, veltu henni svo ofan og lauk þar ævi hans.

Nú voru þeir Jón og Eiríkur dauðir en Þorsteinn og Gísli bjuggu áfram á Bakka og byrjuðu sem fyrri ræður sínar með orðunum; Eiríkur, Gísli, Þorsteinn, Jón. Þau urðu ævilok Gísla að hann drukknaði í Stafá á mörkum Reykjarhóls og Heiðar. Sú á er að jafnaði hrælítil og hét þar síðan Gíslavað, en Þorsteinn bjó á Bakka til elliára með konu sinni einsýnu Gróu. Ekki kunna menn lengur til víss að benda á Gíslavað.

Árið 1703 bjó á Bakka Þorsteinn Eiríksson 47 ára ásamt Guðrúnu Jónsdóttur konu sinni og þremur börnum þeirra. Þar var þá einnig búandi Þorkell Gíslason 31 árs og systir hans Guðrún Gísladóttir, 36 ára vinnukona bróður síns. Ekkert er kunnugt um ættir þessa fólks. En það er í meira lagi athyglisvert að þessi nöfn, Þorsteinn, Gísli og Eiríkur, skuli saman komin á Bakka árið 1703. Faðir þeirra Bakkabræðra skal hafa heitið Þorsteinn, en þrjár af söguhetjunum Gísli, Eiríkur og Þorsteinn. Ef þetta er helber tilviljun má hún kallast stórundarleg. Að endingu er ein saga af þeim feðgum.

Faðir vor kallar kútinn. „Einu sinni sem oftar reri Þorsteinn karl á sjó með þá alla syni sína. Höfðu þeir með sér blöndukút til að drekka úr og var hann látinn vera frammi í bátnum. Fá þeir góðan afla. Þorsteinn karl sat aftur á bita; fer hann nú að þyrsta mjög og segir: „Eiríkur, Þorsteinn, Gísli, Jón, ljáið mér kútinn.“ Þá gegnir einn bróðirinn til og segir: ,,Eiríkur, Þorsteinn, Gísli, Jón, faðir vor vill fá kútinn“ Nú er seilst eftir kútnum; þá segir annar: ,,Eiríkur, Þorsteinn, Gísli, Jón, faðir vor vill fá kútinn, en ekki það sem í honum er.“ Keppa þeir nú allir við að drekka upp úr kútnum, tæma hann og rétta svo karlinum, en hann er þá útaf hniginn og tekur ekki við kútnum. ,,Hérna er kúturinn, faðir vor“, segja þeir, en hann gegnir ekki. Fara þeir þá að gá betur að karlinum. Loks segir einn þeirra: ,,Eiríkur, Þorsteinn, Gísli, Jón, faðir vor er dauður.“ Þá segir annar: ,,Ertu dauður, faðir vor?“ Þá segir hinn þriðji: ,,Segðu til þín, faðir vor, ef þú ert dauður.“ En engu gegnir karlinn. Loks gegnir hinn fjórði og segir: ,,Já, víst hefir faðir vor þyrstur verið, fyrst hann er dauður.“ Með það héldu þeir í land.“

/Byggðasaga Skagfirðinga 8. bindi bls. 277.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir