Björgunaraðgerðir á Hvammstanga

Um hádegið á laugardag tóku athugulir vegfarendur á Hvammstanga eftir því að vatn var tekið að leka inn á gólf í kaffihúsinu Hlöðunni sem er verið að undirbúa fyrir opnun. Þá hafði hækkað svo mikið í Syðri Hvammsá nú í leysingunum að hún flæddi að litlu leyti upp fyrir bakka sína norðan við gamla VSP húsið.

Svo vel vildi til að Slökkviliðið var með æfingu á sama tíma og útkallið kom og var því mætt á staðinn innan mjög skamms tíma með dælur og annan búnað til að dæla út vatninu. Ekkert teljanlegt tjón varð á innanstokksmunum utan þess að gifsplötur blotnuðu lítillega. Einhver verkfæri og annað dót var á gólfi eldhússins, þar sem vatnið lak inn, og tókst að bjarga öllu frá skemmdum, að sögn Maríu Sigurðardóttur annars eiganda Hlöðunnar.

Kaffihúsið Hlaðan stendur norðan við Selasetrið á Hvammstanga og er verið að vinna í því að fullklára það fyrir opnun sem verður upp úr miðjum maí næstkomandi.

Sjá umfjöllun Feykis.is um kaffihúsið

Fleiri fréttir