Blóðbankabíllinn kemur á Sauðárkrók

Blóðbankabíllinn verður á planinu við Skagfirðingarbúð. Mynd:Blóðbankinn
Blóðbankabíllinn verður á planinu við Skagfirðingarbúð. Mynd:Blóðbankinn

Daganna 4.-5. júní mun Blóðbankabíllinn koma á Sauðárkrók.  Að sögn Þorbjargar Eddu Björnsdóttur þá gaf Rauði krossinn Blóðbankanum Blóðbankabílinn árið 2002. Í honum eru fjórir söfnunarbekkir og góð aðstaða til blóðsöfnunar.

Þorbjörg segir að Blóðbankabíllinn sé afar mikilvægur en fastir viðkomustaðir hans skili drjúgu blóði til starfsemi Blóðbankans auk þess sem bíllinn auðveldar Blóðbankanum að finna og virkja nýja blóðgjafa. Hann auðveldar einnig virkum blóðgjöfum sem eiga erfitt með að komast í Blóðbankann að gefa blóð reglulega.

Feyki langaði að forvitnast meira um málið og spurði hana Þorbjörgu nokkurra spurninga.

Afhverju er blóðgjöf mikilvæg?

-Það má segja að Blóðbankinn sé einn af hornsteinum heilbrigðiskerfisins. Án blóðbanka gætum við t.d. ekki framkvæmt skurðaðgerðir hér á landi. Það er ekki hægt að búa til blóð á tilraunastofu og því er eini möguleikinn að fá blóð úr heilbrigðum og lifandi blóðgjöfum. Blóðgjöf er raunveruleg lífsbjörg.  Ein blóðgjöf getur bjargað allt að þremur lífum. Hver blóðgjafi skiptir því gífurlega miklu máli.

Getur hver sem er gefið blóð?

-Allir sem eru hraustir og á aldrinum 18-64 ára geta komið til okkar og látið athuga hvort þeir geti gerst blóðgjafar. Hins vegar erum við með alls kyns reglur sem geta komið í veg fyrir að þú getir gefið blóð. Þessum reglum er ætlað að tryggja öryggi blóðþegans en líka blóðgjafans. Blóðþegar eru oft á tíðum með lélegt ónæmiskerfi og því viðkvæmari en ella. Blóðbankinn er með síðu þar sem hægt er að skoða reglur varðandi heilsufarið. Sjá: blodgjafi.is

Koma margir til ykkar í blóðgjöf og hversu mikla blóðgjöf þarf Ísland á ári?

-Hingað til höfum við náð að anna eftirspurn heilbrigðiskerfisins eftir blóði. Síðustu ár hafa verið um 14000 komur einstaklinga til okkar í Blóðbankann. En líkt og þjóðin þá er blóðgjafahópurinn að eldast og því miður með hækkandi aldri geta komið upp heilsufarsvandamál sem geta komið í veg fyrir að þú megir gefa blóð áfram. Einnig spilar aldur blóðgjafa inn í því eins og reglurnar eru í dag þá máttu ekki gefa lengur en til sjötugs. Því gefur að skilja að við höfum alltaf þörf fyrir nýja blóðgjafa. Á hverju ári þurfum við um 2000 nýja blóðgjafa til viðbótar við þá sem við höfum vegna þeirra sem detta af skrá t.d v/ aldurs og/eða heilsufars.

Ferðist þið mikið á Blóðbankabílnum hvert ár?

-Blóðbankabíllinn er á ferðinni tvisvar til þrisvar sinnum í viku og heimsækir hann þá stærri þéttbýliskjarna í grennd við höfuðborgarsvæðið, menntaskóla, háskóla og ýmis fyrirtæki. Einnig eru farnar lengri ferðir tvisvar á ári t.d. á Snæfellsnes og um Norðurland.

Árið 2016 bættust fjórir nýir áfangastaðir við: Vestmannaeyjar, Ísafjörður, Egilsstaðir og Reyðarfjörður. Þangað er flogið bæði með mannafla og búnað til heilblóðssöfnunar og hafa viðtökurnar verið mjög góðar.

Skoða má áætlun Blóðbankabílsins og annarra blóðsöfnunarferða á heimasíðu Blóðbankans, blodbankinn.is .

Viljið þið koma einhverju sérstöku á framfæri?

Blóðgjöf er lífgjöf. Hver einasta blóðgjöf skiptir gríðarlegu máli og hver einn og einasti blóðgjafi skiptir máli. Það er okkar sameiginlega verkefni að halda úti Blóðbankanum. Þetta er eitthvað sem við sem samfélag þurfum að taka ábyrgð á og ÞÚ skiptir máli. Síðasta blóðsöfnunarferð okkar Blóðbankans á landsbyggðina í vor er á Sauðárkrók. Þar verðum við fyrir framan Skagfirðingabúð þriðjudaginn 4. júní frá kl 13-17 og miðvikudaginn 5. júní frá kl 9-16.

Verið velkomnin til okkar í Blóðbankabílinn, nýir sem virkir. Ég skora á alla íbúa Norðvesturlands að gera góðverk!

/EÍG

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir