Blönduósbær vill flýta viðbyggingu við Fjölbrautaskóla
Bæjarráð Blönduósbæjar hefur staðfest fyrir sitt leyti samning fulltrúa sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Menntamálaráðuneytis um stækkun verknámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
Bæjarstjórn Blönduóssbæjar staðfesti samninginn fyrir sitt leyti eins og hann liggur fyrir og skal tekið tillit til áætlaðrar kostnaðarþátttöku
sveitarfélagsins að upphæð 4.643.177,- í fjárhagsáætlun ársins 2009. Bæjarstjórn gerir þó þann fyrirvara við staðfestingu samningsins, að komi fram misræmi við opnun tilboða í verkið, þar sem niðurstaða útboðs leiðir í ljós hærri framkvæmdakostnað en fyrirliggjandi samningur gerir ráð fyrir, sé rétt að aðilar setjist yfir samningsmál að nýju, eða falli frá framkvæmdum ella. Enda er það skilningur Bæjarstjórnar að um þessa málsmeðferð hafi aðilar sammælst við undirritun samningsins. Þá hvetur bæjarstjórn til þess að Fjármálaráðuneytið staðfesti samninginn hið fyrsta og að allri hönnun og undirbúningi útboðs verði hraðað sem kostur er, svo hefja megi framkvæmdir sem allra fyrst á árinu 2009.