Breytingar á umdæmum sýslumanna og lögreglu ræddar á fundi hjá SSNV
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra kynnti í fyrradag fyrirhugaðar breytingar á umdæmum embætta sýslumanna og lögreglustjóra á fundi með fulltrúum embættanna á Blönduósi og Sauðárkróki ásamt sveitarstjórnarfulltrúum Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Sagt er frá þessu á vef innanríkisráðuneytisins.
Alþingi hefur nú til meðferðar lagafrumvörp er fjalla um þessar breytingar og bíða þau nú annarrar umræðu. Bjarni Jónsson, formaður SSNV, setti fundinn og bauð ráðherra og fylgdarlið velkomið. Innanríkisráðherra fór síðan yfir helstu þætti lagafrumvarpanna. Þau gera annars vegar ráð fyrir fækkun og stækkun á umdæmum sýslumanna og hins vegar umdæmum lögreglustjóra.
Innanríkisráðherra sagði á fundinum að tilgangurinn með stærri rekstrareiningum sýslumannsembætta væri að auka og efla þjónustu ríkisins í héraði og skapa aukin tækifæri til að færa ný verkefni til sýslumanna. Á sama hátt væri tilgangurinn með breytingum á umdæmum lögreglustjóra að auka samhæfingu og samstarf innan lögreglunnar um land allt, standa vörð um grunnþjónustu lögreglunnar, efla stjórnun innan lögreglu og gera lögreglustjórum kleift að sinna alfarið lögreglustjórn. Frumvörpin gera ráð fyrir að breytingarnar taki gildi 1. janúar 2015.