Deplar gefa ærslabelg í Fljótin

Ærslabelgir eru vinsæl leiktæki. Mynd:FE
Ærslabelgir eru vinsæl leiktæki. Mynd:FE

Eins og sagt hefur verið frá í Feyki hófu Fljótamenn í sumar söfnun fyrir leiktækjum fyrir börn og unglinga sveitarinnar. Var ákveðið að byrja á að safna fyrir ærslabelg og fór söfnunin vel af stað og er söfnunarfé nú komið rétt yfir eina milljón króna.

Þau ánægjulegu tíðindi bárust svo á dögunum að ferðaþjónustufyrirtækið Eleven Experience Deplar Farm sem rekið er á bænum Deplum í Fljótum hefði hugsað sér að styðja söfnunina rausnarlega og gefa allan belginn en áætlað er að hann muni kosta um eina milljón króna.

Í Facebookfærslu Stefaníu Hjördísar Leifsdóttur sem er ein af forsvarsmönnum söfnunarinnar segir að nú sé stefnan að bæta leikaðstöðu ungmenna í Fljótum enn betur. „Í sumar fengum við fótboltamörk frá sveitarfélaginu, vonandi getum við gert ásættanlegan völl. Ég hef óskað eftir því að til þess bærir aðilar frá sveitarfélaginu komi og hjálpi okkur við að skipuleggja svæðið sem við höfum fengið afnot af frá Ríkiseignum í landi Nýræktar. Leiktæki fyrir yngstu börnin væru á óskalista og hvað segið þið um aparólu?“ segir Stefanía Hjördís í færslu sinni.

Enn má leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á reikning Íbúa- og átthagafélags Fljóta. Reikningsnúmer: 0347-26-006706, kt: 670617-1140 .

 

Tengd frétt:

Safnað fyrir ærslabelg í Fljótunum

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir