Dregið í jólahappdrættinu á föstudag
Hópur ungs frjálsíþróttafólks hjá mfl. Tindastóls safnar nú fyrir æfingaferð erlendis næsta vor og hefur því efnt til jólahappdrættis, eins og greint var frá í Feyki fyrir jól, og mun ágóðinn renna í ferðasjóðinn. Hópurinn hefur gengið á milli fyrirtækja á Sauðárkróki og safnað fyrir vinning en nú selja þau happdrættismiða með því að ganga í hús í Skagafirði. Vegna leiðinlegs tíðarfars, og dræmrar sölu þar af leiðandi, var sölu haldið áfram eftir áramót og útdrætti frestað til nk. föstudags, þann 9. janúar.
UMSS hópurinn á Gautaborgarleikarnir í frjálsíþróttum sem haldnir voru á Ullevi-leikvanginum í Gautaborg í júní sl. Ljósm./fengin af facebook síðu Frjálsíþróttadeild Tindastóls.
Hópinn skipa níu efnileg ungmenni sem hefur á þessu ári m.a. afrekað tólf Íslandsmeistaratitla og auk þess slegið tvö Íslandsmet. Einn úr hópnum hefur afrekað að fara á heimsmeistaramót og tveir farið á Norðurlandamót. Draumurinn segja þau vera að komast í æfingaferð til Bandaríkjanna en þar segja þau aðstöðuna ekki gerast mikið betri til íþróttaiðkunar, en einnig myndu þau gjarnan vilja fara einhversstaðar til meginlands Evrópu. Á veturna æfir hópurinn í íþróttahúsinu og reiðhöllinni á Sauðárkróki og segja þau megin tilganginn með æfingaferðinni sé að koma sterk inn í sumarið, eftir tvær vikur af æfingum utandyra, og að sama skapi að hrista saman hópinn.
Vinningarnir verða ekki af verri endanum en það eru beinharðir peningar, fyrsti vinningur er 100.000 kr., annar er 75.000 kr. og sá þriðji 50.000 kr. Ungmennin segja fyrirtækin hafa tekið afar vel á móti þeim og vonast þau til þess að íbúar Skagafjarðar munu gera hið sama þegar sækja þá heim. Þeir sem vilja styrkja ungmennin geta lagt inn á reikning: 1125-05-89, Kt: 590499-3589.
Sem fyrr segir verður dregið á föstudaginn kemur og verða vinningsnúmer birt hér á feyki.is.